Fátækustu börnin hreyfa sig minna en önnur börn

Hreyfing er gulls ígildi
Hreyfing er gulls ígildi mbl.is/RAX
eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

BÖRN sem búa við fátækt á Íslandi hreyfa sig minna en önnur börn, borða sjaldnar hollan mat og eru líklegri til að vera of þung og feit samkvæmt niðurstöðum sem fengist hafa úr hluta rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema. Rannsóknin er hluti fjölþjóðlegrar samanburðarrannsóknar 40 landa sem unnin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og er þátttaka Íslands samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar og Háskólans á Akureyri.

Í þeirri könnun sem nú hefur verið birt er ýmist unnið úr svörum allra þátttakenda í 8. og 10. bekk eða 50% úrtaki 10. bekkinga.

Könnunin sýnir að ríflega 4% barna í 8. og 10. bekk telja fjárhagsstöðu fjölskyldunnar slæma eða mjög slæma. Ávaxtaneysla 10. bekkinga var þannig að tæp 5% frá fjölskyldum með slæma eða mjög slæma fjárhagsstöðu borðuðu ávexti oft á dag en hjá þeim sem voru í fjölskyldum með mjög góða fjárhagsstöðu var hlutfallið rúm 15%. Þá voru rúm 13% 10. bekkinga frá efnaminnstu fjölskyldunum of feit en tæp 4% úr efnamestu fjölskyldunum. Svipuð gjá var á milli þeirra fátækustu og efnamestu þegar spurt var um viðhorf til skólans. Rúm 22% þeirra efnaminnstu sögðust líka mjög vel í skólanum en tæp 42% af þeim efnamestu.

Þá var fiskneysla umtalsvert algengari hjá efnameiri fjölskyldunum en hjá þeim fátækari.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir sárt að vita af fólki í fátækt og leggur áherslu á þátttöku Íslendinga í Ári jafnra tækifæra á vegum ESB árið 2007 auk þess sem hann vill skoða möguleika á aðgerðaáætlun vegna fjölskyldna með lök kjör.

Í hnotskurn
» Nærri fjórðungur 10. bekkinga frá efnaminnstu fjölskyldunum hreyfir sig einu sinni í mánuði eða sjaldnar utan venjulegs skólatíma. Hlutfallið er miklu lægra hjá þeim efnamestu, eða tæp 11%.
» Að mati Lýðheilsustöðvar er hreyfing sem nemar fá á skólatíma langt í frá nægjanleg. Því er mikilvægt að börn séu hvött til hreyfingar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert