Sjálfstæðismenn fengju meirihluta í borginni samkvæmt nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig fylgi í Reykjavík og fengi átta borgarfulltrúa eða hreinan meirihluta væri gengið til sveitastjórnarkosninga nú. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Capacent Gallup. Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV.

Frjálslyndi flokkurinn tapar fylgi á sveitarstjórnarstiginu frá kosningum í vor en heldur áfram 11% fylgi sínu á landsvísu. Helmingur styður ríkisstjórnina.

Könnunin var gerð í síma 28. nóvember til 28. desember. Svarhlutfall var ríflega 60%, úrtaksstærð tæplega 3.700. Capacent Gallup hefur ekki mælt fylgi flokka á sveitarstjórnarstiginu frá því kosið var í maí. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig fimm prósentustiga fylgi og fengi átta borgarfulltrúa - eða hreinan meirihluta.

Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentustigum og einum borgarfulltrúa. Vinstri grænir bæta einnig við sig fylgi en halda samt bara sínum tveimur borgarfulltrúum. Bæði Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkurinn tapa fylgi í borginni og koma hvorugur manni að.

Rétt rúmlega helmingur þátttakenda í könnuninni styður ríkisstjórnina. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á landsvísu, tæp 38% - 4 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Samfylkingin er með 24% - 7 prósentustigum minna en fyrir tæpum fjórum árum. Vinstri grænir eru með tæp 19% sem er tæplega tvöfalt meira fylgi en í kosningunum. Þá hefur Frjálslyndi flokkurinn bætt sig um rúm þrjú prósentustig frá kosningum, í 11%. Framsóknarflokkurinn nýtur minnst fylgis eða tæplega 9% en var með tvöfalt meira fylgi í alþingiskosningunum 2003, að því er fram kemur á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert