Hraðaeftirlit aukið í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli

Lögreglan þarf að taka á ýmsum málum.
Lögreglan þarf að taka á ýmsum málum. mbl.is/Júlíus

Í síðustu viku voru 32 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og í a.m.k. þremur tilfellum voru ökumenn mældir á yfir 120 km hraða í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli. Ætlar lögreglan að auka eftirlit með hraðamælingatækjum í umdæminu.

Einn á 142 km hraða, annar ár 132 km hraða og sá þriðji á 125 km hraða.

Í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli kemur fram að lögreglan leggur allt kapp á að ná niður umferðarhraða á vegum umdæmisins og um leið að draga úr alvarlegum umferðarslysum. Þetta er gert með auknu eftirliti á vegum þar sem hraðamælingatækjum lögreglunnar er beitt.

Auk þess hefur lögreglan daglega afskipti af fjölda annarra vegfarenda með reglubundu eftirliti „tékki“ þar sem skoðað er ástand ökumanna og ökuréttindi könnuð svo eitthvað sé nefnt. Lögreglan fylgist einnig með að ökutæki séu í lögboðnu ástandi, færð til skoðunar á réttum tíma og svo framvegis.

Í síðastliðinni viku hafði lögreglan í tvígang afskipti af ökumönnum dráttavéla á Suðurlandsvegi sem voru með stóra eftirvagna tengda við dráttarvélar sínar. Í báðum tilfellu voru eftirvagnarnir lestaðir heyrúllum, tæplega 20 heyrúllur á hvorum vagni. Eftirvagnar þessir voru ekki í lögboðnu ástandi.

Í öðru tilfellinu virkuðu ekki afturljós, hvorugur eftirvagninn var skráður og þar af leiðandi ekki með skráningarnúmer, heyrúllufarmurinn var ekki bundinn niður á eftirvagninn og engin skjólborð voru á eftirvögnunum. Þá var engin undirakstursvörn á vögnunum tveimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert