Vill fá endurgreiddan radarvarann vegna hraðaksturssektar

Radarvari réttætir ekki hraðakstur
Radarvari réttætir ekki hraðakstur mbl.is/Kristinn

Seinheppinn ökumaður sem var tekinn fyrir hraðakstur á Kringlumýrarbraut í gærkvöldi hyggst krefjast endurgreiðslu vegna radarvara sem ekki virkar sem skyldi. Viðkomandi hefur ítrekað verið staðinn að umferðarlagabrotum, þ.á.m. hraðakstri og hugðist leysa vandann með því að fjárfesta í radarvara. Hann var tekinn fáeinum klukkustundum síðar á 117 kílómetra hraða.

Í stað þess að hægja á akstrinum virðist maðurinn hafa haldið að radarvari myndi forða honum frá frekari vandræðum, hann fór því í gær og keypti slíkan grip og kom honum fyrir í bílnum.

En allt kom fyrir ekki og fáeinum klukkutímum síðar var hann stöðvaður á Kringlumýrarbraut eins og fyrr sagði. Nú mældist bíll hans á 117 km hraða og fyrir vikið fær maðurinn enn eina sektina, upp á 50 þúsund krónur í þetta sinn.

Maðurinn átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum þegar lögreglumenn stöðvuðu hann við aksturinn en svekkelsi hans beindist þó fyrst og fremst að söluaðila radarvarans. Kvaðst maðurinn ætla að fara með radarvarann og krefjast endurgreiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert