Neytendasamtökin mótmæla tollum á innfluttu grænmeti

mbl.is/Ómar

Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að leggja eigi tolla á innflutt grænmeti sem kemur frá löndum utan Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í bréfi sem samtökin hafa sent forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra.

„Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir því harðlega að leggja eigi tolla á innflutt grænmeti sem kemur frá löndum utan Evrópusambandsins. Að undanförnu hafa stjórnvöld gripið til aðgerða til að lækka matvælaverð sem er allt of hátt. Það kemur því verulega á óvart að stjórnvöld hafi fallist á í samningum við Evrópusambandið að tollar verði á nýjan leik lagðir á grænmeti.

Minnt er á að það var ekki tilviljun að tollar voru felldir niður á grænmeti og um leið teknar upp beingreiðslur til innlendra framleiðenda. Á hverju sumri hækkaði verð á grænmeti verulega þegar tollar voru lagðir á innflutt grænmeti sem var í samkeppni við innlenda framleiðslu. Stjórn Neytendasamtakanna hvetur stjórnvöld til að beita sér fyrir því að þessum samningum verði breytt þannig að engir tollar verði lagðir á grænmeti. Þetta á einnig við um kartöflur, gulrætur og sveppi, en afnám tolla á sínum tíma náði ekki til þessara vara,” að því er segir í bréfi Neytendasamtakanna og greint er frá á vef Neytendasamtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert