Þórólfur Þórlindsson nýr forstjóri Lýðheilsustöðvar

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra hefur sett Dr. Þórólf Þórlindsson forstjóra Lýðheilsustöðvar til eins árs.

Þórólfur Þórlindsson hefur gegnt starfi prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hefur sinnt viðamiklum félagsvísindarannsóknum á hegðan ungmenna, birt fjölmargar ritrýndar vísindagreinar í alþjóðlegum tímaritum og ritað bækur um efnið, samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Dr. Þórólfur hefur um árabil lagt sitt af mörkum í forvarnastörfum, m.a. verið formaður Áfengis- og vímuvarnarráðs. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, m.a. sem deildarforseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála. Þá hefur Dr. Þórólfur gegnt formennsku og setið í fjölmörgum ráðum og nefndum, verið formaður Félags háskólakennara og Félags prófessora og varaformaður Vísindaráðs.

Þórólfur Þórlindsson tekur við forstjórastarfinu af Önnu Elísabetu Ólafsdóttur. Hún hefur gegnt starfi forstjóra Lýðheilsustöðvar undanfarin fjögur ár og hyggst leggja stund á doktorsnám í lýðheilsufræðum í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert