Framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs vikið frá um stundarsakir

Menntamálaráðuneytið hefur veitt Þorfinni Ómarssyni lausn frá embætti framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands um stundarsakir vegna alvarlegra athugasemda Ríkisendurskoðunar við skil og vörslu á gögnum og stöðu bókhalds sjóðsins. Hefur Þorfinni verið gerð grein fyrir þessu. Kemur í hlut nefndar sérfróðra manna að skera úr um hvort Þorfinni verður veitt lausn að fullu eða honum boðið að taka aftur við embættinu.

Menntamálaráðuneytið óskaði eftir því í mars að Ríkisendurskoðun rannsakaði reikningsskil Kvikmyndasjóðs Íslands fyrir árin 2000 og 2001. Tilefni þess bréfs voru aðfinnslur sem fram höfðu komið af hálfu Ríkisbókhalds við reikningsskil Kvikmyndasjóðs. Ráðuneytinu hefur nú borist greinargerð Ríkisendurskoðunar um framangreinda rannsókn, ásamt endurskoðunarskýrslu. Í greinargerðinni segir, samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins: „Í endurskoðunarskýrslunni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við skil og vörslu á gögnum og stöðu bókhalds sjóðsins. Svo sem ráðuneytinu er kunnugt hafa bæði Ríkisbókhald og Ríkisendurskoðun gert margar og ítrekaðar athugasemdir á liðnum árum við þessa þætti í rekstri Kvikmyndasjóðs en með litlum árangri. Þessi verkefni voru allt fram á þetta ár fyrst og fremst í höndum forstöðumanns sjóðsins. Árum saman hefur gengið örðuglega að fá hann til þess að skila nauðsynlegum gögnum til Ríkisbókhalds á réttum tíma þannig að ganga hafi mátt frá lögboðnu ársuppgjöri sjóðsins. Viðvarandi hirðuleysi við að halda bókhaldsgögnum til haga hefur m.a. leitt til þess að fylgiskjöl hafa týnst og erfiðleikar skapast við að loka reikningum sjóðsins. Þá má ekki gleyma því að öll vinna í þessu sambandi hefur fyrir vikið reynst mun tímafrekari en ella. Fram hjá því verður ekki heldur litið að með því að hirða á ófullnægjandi hátt um vörslu og skil á bókhaldsgögnum, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli um átak í þeim efnum, hefur forstöðumaðurinn virt að vettugi grundvallarreglur, sem gilda um bókhald ríkisins og vörslu bókhaldsgagna. Minnt skal á að samkvæmt 49. gr. fjárreiðulaga bera forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lögin og þeim sé skilað á réttum tíma til Ríkisbókhalds." Jafnframt segir í greinargerð Ríkisendurskoðunar: „Þegar endurskoðunin fyrir árið 2001 hófst voru uppgjörsmál mjög skammt á veg komin og í raun hafði ekkert þokast í því efni um nokkurt skeið, einkum vegna óreiðu á gögnum og skorti á afstemmingu á bankareikningum. Mikið af bókhaldsgögnum á borð við ferðareikninga og fylgiskjöl til afstemmingar á bankareikningum lágu ekki fyrir. Rétt eins og á liðnum árum gekk bæði seint og illa að finna þau og leggja þau fram. Þegar upp var staðið fundust ekki reikningar fyrir erlendum ferðakostnaði að fjárhæð um 363 þús. kr. sem allur tengist ferðum forstöðumanns sjóðsins. Hér er um mörg kostnaðartilefni að ræða, sem ýmist tilheyra árinu 2001 eða árinu 2000. Þó svo að forstöðumaður sjóðsins hafi gert trúverðuga grein fyrir þessum útgjöldum verður ekki fram hjá því litið að greiðslur úr ríkissjóði verða skilyrðislaust að byggjast á fullnægjandi gögnum. Varsla forstöðumanns og hirða um greiðslu- og bókhaldsgögn er að mati Ríkisendurskoðunar ámælisverð og þá ekki síst í ljósi þess að hann hefur á liðnum árum ítrekað verið hvattur til þess að taka sig á í þessum efnum." Segir menntamálaráðuneytið að af ofangreindu tilefni telji ráðuneytið að ekki verði hjá því komist að veita Þorfinni Ómarssyni lausn frá embætti framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs Íslands um stundarsakir á grundvelli 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Komi því í hlut nefndar sérfróðra manna að skera úr um hvort Þorfinni verður veitt lausn að fullu eða honum boðið að taka aftur við embætti, sbr. 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert