Niðurgrafinn í farveg Krossár

mbl.is/Sigurður Ó. Sigurðsson

Jeppi, sem hefur setið fastur í farvegi Krossár frá verslunarmannahelgi, kom í ljós þegar áin færði sig um set í miklum rigningum fyrir rúmri viku. Jeppinn hafði þá grafist djúpt niður í farveg árinnar og er fullur af sandi og grjóti.

Sigurður Ólafur Sigurðsson, skálavörður í Langadal, segir að of mikið hafi verið í ánni til að ná jeppanum upp úr um verslunarmannahelgi þegar hann festist en síðan hafi verið reynt í tvígang að ná honum upp, án árangurs. Síðast hafi verið reynt með traktor og þá hafi allir spottar slitnað. Telur Sigurður að öll olía hafi þegar lekið frá bílnum, sem er um tíu ára gamall, óbreyttur Cherokee-jeppi.

Fyrir rúmri viku breytti Krossá um árfarveg í kjölfar mikilla rigninga þannig að bíllinn, sem hafði verið í mjög djúpu vatni, kom aftur í ljós. Finnbogi Ómarsson, skálavörður í Húsadal, segir að þá hafi hann án árangurs reynt að moka í kringum jeppann til að losa hann.

Fólkinu bjargað fyrir Guðs náð

Bíllinn er á ábyrgð eigandans og segir Finnbogi að Austurleið, sem rekur ferðaþjónustuna í Húsadal, muni skoða hvort þess verði krafist að eigandinn láti fjarlægja bílinn. Segir Finnbogi að eigandinn hafi haft samband á mánudagskvöld, en þá hafði ekkert í honum heyrst í margar vikur. Ætlar eigandinn að fara í Þórsmörk um næstu helgi.

Þrír voru í bílnum þegar hann festist í ánni. "Fólkinu var bjargað fyrir Guðs náð, það var ægilegt vatn í ánni þennan dag," segir Finnbogi. Hann segir að fólkið hafi komist upp á þak bílsins þaðan sem því var bjargað í rútu sem flutti það aftur á þurrt land.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert