Helgi Kristjánsson sigurvegari í listflugi

Íslandsmeistaramóti Flugmálafélags Íslands í listflugi lauk fyrir skömmu með sigri Helga Kristjánssonar flugkennara er keppti á rússneskri 360 hestafla vél af gerðinni YAK 55.

Fráfarandi Íslandsmeistari er Magnús Norðdahl, fyrrverandi flugstjóri hjá Flugleiðum, sem tók sér frí frá keppni í ár.

"Nú eru sjö listflugvélar skráðar á Íslandi, þar af fjórar heimasmíðar. Auk þess er unnið að smíði fimm nýrra listflugvéla. Vaxandi áhugi yngri flugmanna og stækkandi floti flugvéla í greininni þýðir að björt framtíð blasir við á þessu sviði," segir m.a. í fréttatilkynningu.

Keppnin í ár var afar jöfn því aðeins 648 stig skildu að fyrsta og þriðja sætið.

Íslandsmeistarinn hlaut 16.563 stig, næststigahæstur var Ingólfur Jónsson, flugmaður hjá Flugfélaginu Atlanta, með 16.404 stig og Friðrik Ingi Friðriksson framkvæmdastjóri lenti í þriðja sætinu með 15.915 stig. Íslandsmótinu hefur verið skipt í tvo áfanga og er þetta sjöunda árið í röð sem keppnin er haldin í núverandi mynd. Sá fyrri er jafnan haldinn á Akureyri um Jónsmessuna og í ár lauk honum með sigri nýja Íslandsmeistarans. Hinn síðari hefur farið fram á suðvesturhorni landsins, að þessu sinni á Sandskeiði þar sem Ingólfur Jónsson varð hlutskarpastur.

Hvor áfangi skiptist síðan í tvo hluta. Annars vegar þarf að fljúga fyrirfram ákveðin atriði sem flugmennirnir hafa getað æft frá síðustu áramótum og hins vegar að fara að fyrirmælum sem þeim eru afhent 30 mínútum fyrir flugtak. Um sjö mínútur tekur að fljúga hvorn hluta.

Keppt er eftir reglum frá Alþjóðalistflugsráðinu (IAC) sem m.a. grundvallast á táknkerfi listflugsgreinarinnar er kallast Aresti-kerfið í höfuðið á spænskum greifa og listflugmanni og var innleitt árið 1964.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert