Vonar að Guðni fái vitrun

Ástþór Magnússon forsetframbjóðandi.
Ástþór Magnússon forsetframbjóðandi. mbl.is/Árni Sæberg

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi segir það sorglegt að þjóðin sé ekki betur vakandi fyrir því að Ísland eigi tækifæri á að taka forystu í friðarmálum og byggja hér upp starfsemi sem friðarríki.

„Við vorum tveir frambjóðendur sem vorum með þennan málaflokk og sorglegt að sjá hvað það var lítill stuðningur.“

Segir ákveðna frambjóðendur hafa verið útilokaða

Ástþór gagnrýnir umgjörð kosninganna og segir suma frambjóðendur hafa verið útilokaða frá ákveðnum miðlum.

„Svo finnst mér öllum aðdraganda kosninganna vera ábótavant, hvað varðar hvernig skoðanamyndun var stjórnað með ákveðnum könnunum í byrjun. Það var til dæmis notað til að útiloka mig frá þáttum hjá 365 miðlum, það sást hjá Höllu hvað það hafði dramatísk áhrif á fylgi að fara inn í þá þætti. Þeir stimpluðu út vissa frambjóðendur í huga almennings.“

Telur hann það hluta skýringarinnar á litlu fylgi sínu, en hann bjóst við betri niðurstöðu. „Ég bjóst ekki við því að vinna kosningarnar endilega, en ég bjóst við því að það yrði sýndur meiri stuðningur við málið. Það getur vel verið að fólk hafi verið að kjósa svolítið taktískt, það hefur oft verið áður. En auðvitað eru það vonbrigði að fólk sýni ekki meiri stuðning við málefnið.“

„Ég var auðvitað svolítið að vekja athygli á baklandi þess sem var verið að kjósa og það væri ekki allt sem sýndist á yfirborðinu og hann þyrfti að gera hreint fyrir sínum dyrum. Ég áttaði mig á því að það gæti skemmt fyrir mér, en ég þurfti að gera það. Ég held líka að það sé betra fyrir hann þannig að þjóðin viti hvað hún er að kjósa.“

Ástþór segir Guðna þó ágætan mann sem eigi fallega fjölskyldu og það sé komin falleg glansmynd á Bessastaði fyrir þjóðina. Hann vonist þó til þess að forsetinn geti starfað sjálfstætt: „Ég vona að Guðni hafi kjark og þor til að segja skilið við sitt bakland og starfa sjálfstætt fyrir þjóðina,“ segir Ástþór og bætir því við að hann óski Guðna til hamingju með afmælið í dag.

Ætlar ekki að hætta

Inntur eftir því hvort hann ætli sér að bjóða sig fram á ný í næstu kosningum, vill Ástþór ekki útiloka neitt, en fyrst og fremst vonast hann til þess að fleiri frambjóðendur komi fram og tali fyrir sama málstað.

„Ég vona að einhverjir komi í kjölfarið með málstaðinn. Helst vildi ég sjá alla frambjóðendur með þetta málefni á oddinum, eða þá að Guðni fái vitrun og taki þetta málefni upp á arma sína. Í kosningabaráttu sinni var hann að lýsa yfir stuðningi við NATO og ég held að það ógni framtíð okkar ef við erum að styðja hernaðarbrölt NATO.“

„Ég mun halda áfram þar til annaðhvort ljósið færist yfir Bessastaði með einhverjum friðarboða, eða ég verð kominn undir græna torfu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert