Þakklátur fyrir stuðningsyfirlýsingar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er afar þakklátur fyrir stuðningsyfirlýsingar sem streyma inn,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, á Facebook-síðu sinni en ýmsir trúnaðarmenn flokksins tilkynntu úrsögn sína úr honum í gær og fyrradag og lýstu yfir stuðningi við nýjan stjórnmálaflokk sem Sigmundur hefur boðað.

Sjálfur tilkynnti Sigmundur um úrsögn sína úr Framsóknarflokknum um helgina. Sigmundur segir enn fremur að skráning í Framfarafélagið sem hann stofnaði fyrr á árinu jafngildi ekki þátttöku í fyrirhuguðum flokki en hann hafi fengið fyrirspurnir þess efnis. Biður hann þá sem höfðu skráð sig í félagið og vilja starfa í flokknum að skrá sig sérstaklega í hann.

Sigmundur hefur einnig hvatt fólk til að koma með hugmyndir að nafni á nýja stjórnmálaflokkinn. Fjölmiðlamaðurinn fyrrverandi Björn Ingi Hrafnsson hefur keypt lénið Samvinnuflokkurinn og hafa vangaveltur verið um að það kynni að verða nafnið á flokknum en Sigmundur hefur sagt ekki sé ljóst hvort hann muni vinna með Birni Inga.

Þá hefur bróðir Sigmundar, Sigurbjörn Magnús Gunnlaugsson, keypt lénið Miðflokkurinn.is en systurflokkur Framsóknarflokksins í Noregi, Senterpartiet, gengur undir því nafni hér á landi. Hvert nafn nýja flokksins verður kemur væntanlega í ljós á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert