Mögnuð fráhvarfseinkenni

Þingmenn rifust um forseta Alþingis svo að þakið ætlaði að rifna af húsinu á fyrsta starfsdegi þingsins eftir ríkisstjórnarskiptin. Sjálfstæðismenn brugðust ókvæða við að minnihlutastjórn vildi embætti þingforseta en sjálfstæðismaður hefur gegnt því embætti í 18 ár. Mögnuð fráhvarfseinkenni segir fjármálaráðherra.

Það gekk ekki átakalaust að kjósa nýjan forseta þingsins á fyrsta starfsdegi þingsins eftir að ný ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum. Sjálfstæðismenn gagnrýndu meirihluta þingsins harðlega fyrir aðför að Sturlu Böðvarssyni og sögðu gerninginn vera í boði Framsóknarflokksins.  Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallaði eftir yfirlýsingum stjórnarandstöðunnar um sjálfstæði þingsins og þá sérstaklega Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem sagði Sjálfstæðisflokkinn með ótrúleg fráhvarfseinkenni eftir átján ára setu á valdastóli.

Eftir þessa snerru sem bar ýmist vott um ótrúlega valdagræðgi Samfylkingarinnar og fláræði Framsóknarflokksins eða leiddi í ljós ótrúleg fráhvarfseinkenni Sjálfstæðisflokksins, allt eftir flokkslínum var Guðbjartur Hannesson kosinn forseti þingsins með 35 atkvæðum en Sturla Böðvarsson hlaut 25.

Sjá nánar á MBL sjónvarpi.

mbl.is