245 kg af sprengiefni stolið úr geymslu á Hólmsheiði

Miklu magni af sprengiefni var stolið úr sprengiefnageymslu, sem stendur við Hólmsheiði, rétt austan við Rauðavatn, í nótt. Um var að ræða dýnamít, bæði venjulegar túpur og mjóar hleðslur á rúllum, um 245 kg. Ekki var stolið hvellhettum eða öðrum kveikibúnaði, að því er fram kemur á vefsvæði lögreglunnar.

Sprengiefnið var í níu pappakössum og tveimur plastpokum. "Lögreglan vill vekja athygli á að meðferð og notkun sprengiefnis er ekki á færi annarra en þeirra sem til þess hafa tilskilin réttindi og búa yfir kunnáttu og þekkingu á meðferð þess. Meðferð annarra en þeirra sem með kunna er stórhættuleg."

Þeir sem kunna að hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir við eða í nágrenni sprengiefnageymslunnar í gærkvöldi og nótt eru beðnir um að gefa sig fram við lögreglu. Allir sem einhverjar upplýsingar geta veitt eða verða varir við óeðlilega meðhöndlun sprengiefnis eru sömuleiðis hvattir til að hafa þegar í stað samband við lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert