Yfir 72% tölvuskeyta sýkt af orminum

Tvö af hverjum þremur tölvuskeytum sem fóru í gegnum póstþjóna í gær voru tölvuveiran SoBig.F@mm, en veiran gerði fyrst vart við sig á þriðjudag.

Að sögn Friðriks Skúlasonar hjá Friðriki Skúlasyni ehf. var hlutfallið komið upp fyrir 72% meðal þeirra fyrirtækja sem nýta sér póstsíu Friðriks Skúlasonar ehf., en venjulega er þessi smittala í kringum 2-3%.

Hjá netþjónustu Landssímans höfðu um 160 þúsund skeyti verið stöðvuð um miðjan dag í gær og tæplega 200 þúsund sýkt skeyti voru stöðvuð á póstþjóni Og Vodafone í gær. Mikill fjöldi hafði einnig verið stöðvaður af Margmiðlun ehf. en póstþjónninn þeirra lá niðri milli níu og tólf í gærmorgun vegna álags.

Þá var álagið á póstþjónum Háskóla Íslands meira en áður hefur þekkst og víða lömuðust póstkerfi fyrirtækja í lengri eða skemmri tíma. Viðskiptavinir Kauphallar Íslands þurftu að fara með gögn á disklingum í gær því póstkerfi Kauphallarinnar annaði ekki að taka við pósti.

Fékk 40 þúsund tölvuskeyti

"Stærsti skaðinn sem þessi vírus veldur fólki er að hann fyllir upp pósthólfin," segir Friðrik Skúlason. Hann segist vita til þess að einn einstaklingur hafi fengið 40 þúsund tölvuskeyti með veirunni. Friðrik telur að í versta falli ljúki faraldrinum 10. september nk., en veiran er forrituð þannig að hún hættir að virka og eyðir sjálfri sér þann dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert