Leyft verði að eiga og nota fíkniefni í Noregi og að sýna klám í sjónvarpi

Opinber nefnd í Noregi sem falið var að endurskoða hegningarlögin vog færa þau í nútímalegra horf mun leggja til að leyfilegt verði að eiga og nota fíkniefni og ölvunarakstursmörk verði hækkuð, að því er heimildir Aftenposten herma.

Hegningarlaganefndin hefur verið að störfum allt frá árinu 1994 og er gert ráð fyrir að hún skili Odd Einar Dørum dómsmálaráðherra niðurstöðum sínum í mars. Er nefndin sögð leggja til að ekki þurfi lengur að „breiða yfir" kynfæri fólks er klámmyndir eru sýndar í sjónvarpi. Búist er við að sú tillaga muni vekja upp harðar deilur, rétt eins og þegar hópur kvenna í Verkamannaflokknum lagði hið sama til árið 1999. Þá þykir og eldfim sú tillaga nefndarinnar að gera það ekki andstætt hegningarlögunum að eiga og nota fíkniefni, ekki bara kannabis og hass heldur og einnig harðari efni á borð við heróín og amfetamín. Sala slíkra efna mun áfram varða við lög en gert er ráð fyrir að nefndin leggi þó til að refsingar við því verði lækkaðar. Þá kann svo að fara að nýlega hertar reglur um ölvunarakstur verði rýmdar á ný. Nefndin er sögð munu leggja til að það teljist ekki ölvunarakstur fyrr en áfengismagn í blóði mælis 0,5 prómill eða meira. Nýlega voru mörkin lækkuð niður í 0,2 prómill og leiddi það til harðrar gagnrýni af hálfu lögmanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert