„w00t“ valið orð ársins

Netleikjaáhugamenn munu vísast fagna því mjög að bandaríska orðabókin Merriam-Webster hefur valið „w00t“ orð ársins. Í netheimum er þetta orð notað til að tjá gleði eða hrósa sigri, og bar það afgerandi sigurorð af öðrum orðum í vali á því orði sem helst var einkennandi fyrir 2007. Valið fór fram á netinu.

Framkvæmdastjóri Merriam-Webster, John Morse, sagði „w00t“ vel til fundið því að það sameinaði duttlunga og nýja tækni.

„Það sýnir vel þá áhugaverðu hluti sem eru að gerast í tungumálinu. Þetta er orð sem hefur orðið til einvörðungu vegna þess að samskipti eru orðin rafræn,“ sagði Morse.

Orðið „woot“ kom reyndar fyrir í þeirri frægu kvikmynd Pretty Woman, sem gerð var 1990, í atriði þegar Júlía Roberts hrópar það til að hvetja pólóleikara, hástéttarvinum sínum til mikillar furðu.

En meðal netverja er orðið stafsett með tveim núllum í staðinn fyrir tvö o, en algengt er að á netinu séu tölustafir notaðir í stað bókstafa sem þeir líkjast, eins og til dæmis þegar 3 kemur í staðinn fyrir E.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert