Klassísk tónsmíðakeppni á YouTube

Sköpunargleðin er ríkjandi á YouTube
Sköpunargleðin er ríkjandi á YouTube mbl.is

Vefsíðan sívinsæla YouTube hyggst koma af stað samkeppni meðal notenda á vefnum í þeim tilgangi að uppgötva ný tónskáld sígildrar tónlistar. Notendur hafa frest til 28. janúar 2009 til að senda inn keppnismyndbönd sem sýni tónlistarhæfileika þeirra.

Sigurvegararnir í keppninni fá að koma fram á þriggja daga hátíð sígildrar tónlistar sem haldin verður í Carnegie Hall í New York.

Útgangspunktur keppninnar er tónverk, sett fram af YouTube en samið af tónskáldinu Tan Dun sem hlotið hefur bæði Grammy og Óskarsverðlaun fyrir tónsmíðar sínar í kvikmyndunum Crouching Tiger Hidden Dragon og Hero. Keppendur geta halað niður tónverkinu og séð myndskeið þar sem hann stjórnar synfóníuhljómsveit, og eiga loks að flytja þeirra eigin túlkun af verkinu.

„Internetið er ósýnilegur silkivegur sem tengir fólk saman um allan heim. Hver sem er getur halað niður upptöku af verkinu mínu, Internetsynfóníu No 1 „Eroica", valið hvaða hluta þess sem er og flutt það með hvaða hljóðfæri sem er á hvaða hátt sem er,“ sagði Dun í samtali við fréttavef BBC.

Til viðbótar þurfa keppendur einnig að flytja eitt frægt klassískt tónverk að eigin vali. Myndböndin fara svo fyrir dómnefnd sem velur úr þau bestu og mun almenningur geta kosið á milli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert