Elsti skór í heimi enn í tísku

Elsti skór í heimi fannst í helli í Armeníu, 5.500 …
Elsti skór í heimi fannst í helli í Armeníu, 5.500 ára gamall. HO

Nýr fornleifafundur í Armeníu sannar að tískan gengur í hringi og breytist minna en margir vilja halda. Fornleifafræðingar hafa fundið 5.500 ára gamlan leðurskó sem sagður er elsti skór í heimi og svipa mjög til mokkasína sem voru í tísku á 6. áratugnum og eru raunar aftur að verða vinsælar núna.

Skórinn, sem gerður er úr kúaleðri, er ótrúlega vel varðveittur í ljósi þess að hann var sniðinn u.þ.b. þúsund árum áður en Pýramídinn mikli í Gísa var reistur eða í kringum 3.500 fyrir Krist. Hann er gerður úr einni leðurpjötlu sem sniðin er að fæti, í stíl við mokkasínu eða jafnvel íslenska sauðskinsskó.

„Það er áhugavert hvað skórinn er svipaður hinum svokölluðu „pampooties" sem voru mikið notaðar á Aran-eyjum á Írlandi upp úr 1950," segir  Ron Pinhasi, sem leiddi uppgröftinn á vegum Cork háskóla á Írlandi. „Eiginlega má segja að það sé ótrúlega margt líkt með stíl og gerð þessa skós og þeirra sem notaðir hafa verið víða í Evrópu á öllum tímum. Það bendir til þess að þessi gerð af skóm hafi víða verið notuð og á ólíkum svæðum í þúsundir ára."

Skórinn fannst undir þykku lagi af kindaskít í helli í Armeníu og hefur varðveist fullkomlega þökk sé þurrkinum í skítnum. Hann er sambærilegur við skóstærð 37 og gæti hafa verið notaður hvort heldur af karli eða konu. Ofan í skónum fannst gras, en ekki er ljóst hvort það var notað til að halda hita á fætinum eða til að halda formi skósins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert