Ávextir og grænmeti gegn krabba

Grænmeti er meðal þess sem hefur reynst vel í baráttunni …
Grænmeti er meðal þess sem hefur reynst vel í baráttunni við krabbamein mbl.is/G.Rúnar

Neysla fjölbreyttra tegunda ávaxta og grænmetis getur dregið úr hættu á að reykingafólk fái sumar tegundir lungnakrabbameina. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem birt var í dag. Áhrifaríkasta forvörnin er þó að hætta reykingunum.

Rannsóknin var birt í tímaritinu Cancer Epidemiology, Biomarkers & Prevention. Hún tók til meira en 450 þúsund einstaklinga i Evrópu og af þeim höfðu 1.600 verið greindir með lungnakrabbamein.

Vísindamennirnir sögðu að fjölbreytni ávaxtanna og grænmetisins skipti meira máli en magnið sem innbyrt væri. Þeir rannsökuðu áhrif 14 algengra ávaxtategunda og 26 tegunda grænmetis. Afurðirnar voru ýmist ferskar, niðursoðnar eða þurrkaðar.

„Ávextir og grænmeti innihalda mörg virk lífræn efni og það er skynsamlegt að álykta að það sé mikilvægt að borða ekki einungis ráðlagða skammta, heldur að borða einnig ríkulega blöndu af þessum lífvirku efnum með því að borða fjölbreytt úrval,“ sagði Bueno-de-Mesquita sem kynnti niðurstöðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert