Fréttaskýring: Fjárfesting til framtíðar

Lagning ljósleiðara
Lagning ljósleiðara mbl.is/Golli

Í vikunni var fjallað um nýjar leiðir í netsamskiptum þar sem ræddir voru kostir ljósleiðaralagna inn á heimili og eins sú lausn sem er algeng víða að leggja ljósleiðara að tengiboxi í götu en síðan flytja gögn þaðan ýmist með ljósleiðara inn á heimilið eða með koparvírunum sem liggja inn í hvert hús – símalínunni. Síminn, sem er leiðandi í gagnaflutningum inn á heimili, hefur veitt þjónustu um svonefnt breiðband en hyggst leggja það af og hefur boðað nýja tækni sem hann kallar ljósnet.

Ljósnetið byggist á áþekkri tækni og breiðbandið, þ.e. ljósleiðara að tengiboxi og síðan ljósleiðara eða koparvír inn á heimilið, en beitir nýrri tækni við gagnaflutningana, meðal annars með nýjum búnaði í tengiskápa, sem tryggir mun meiri flutningshraða, eða allt að 100 Mb hraða á sekúndu með svonefndri VDSL-tækni sem leysir af hólmi ADSL-tengingar sem eru algengastar nú um stundir. Þessi tæknivæðing, sem felur í sér um 800 milljóna króna fjárfestingu Símans, mun ná til um 40 þúsund heimila á höfuðborgarsvæðinu á næstu tveimur árum.

Síminn byrjaði að leggja ljósleiðara milli símstöðva 1985, til stærri fyrirtækja frá 1990 og í götuskápa fyrir heimili frá 1995. Frá 2002 var byrjað að leggja ljósleiðara inn á heimili með koparstrengjum og síðan eingöngu ljósleiðara frá 2007. Þess má svo geta að um 8% nettenginga heimila hér á landi eru um ljósleiðara, en um 90% eru tengd með kopar með xDSL tækni.

Þörfinni svarað og gott betur

Á vefsetri Símans kemur fram að samkvæmt mati erlendra greiningaraðila muni kröfur um tengihraða umfram 24 Mbita á sek. fyrst hefjast upp úr 2011 og þannig muni ekki nema 20% þurfa 100 Mbita á sek. 2015, en 2020 mundi 68% heimila þurfa 100 Mbita á sek. hraða. Í því ljósi muni ljósnetið ná að svara vel óskinni um bandvídd til heimila og gott betur.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir að Íslendingar hafi verið í fremstu röð þjóða hvað varðar háhraðatengingar til heimila og það sé ekki síst fyrir framsýni Símans. „Þarfir fólks taka stöðugt breytingum og aðalkrafan í dag snýr að því sem kalla má vídeóflutning. Sjónvarp og myndskeið á netinu, YouTube og álíka þjónusta, er farin að taka stóran hluta af þeirri nettengingu sem fólk notar í dag,“ segir Sævar Freyr og bætir við að aðgangur að því sem verið hefur hefðbundin netnotkun hingað til kalli ekki á mikla bandvídd, heldur muni sjónvarpsefni og vídeó drífa tækniþróunina í nettengingum.

„Okkar markmið er að hjálpa fólki að geta notið þeirrar þjónustu sem er í boði hvort sem hún er á netinu eða með gagnvirku sjónvarpi beint í hús. Við munum þannig bjóða upp á þjónustu eins og til dæmis háskerpu „video on demand“ og einnig möguleika eins og að viðskiptavinur getur sett á pásu þegar hann er til dæmis að horfa á leik í enska boltanum og haldið síðan áfram að horfa á þegar honum hentar. Það er nokkuð sem við munum bjóða á næsta ári til dæmis,“ segir Sævar Freyr, en fyrirhugaðar eru tilraunir á þessari þjónustu og öðrum hjá starfsfólki Símans á næstunni.

17.000 heimili þegar tengd

Í fréttum hefur komið fram að fjárfesting Símans í nýjum búnaði vegna ljósnetsins verður um 800 milljónir króna. Sævar Freyr segir að sú fjárfesting sé vissulega umtalsverð en ekki mjög mikil þegar litið sé til þess fjölda notenda sem fyrirtækið muni þjóna. Þegar sé búið að tengja 17.000 heimili og vinna í fullum gangi við að tengja fleiri heimili, en alls ætlar Síminn að um 42.000 heimili eigi möguleika á að tengjast ljósnetinu.

„Kostnaður okkar við að tengja hvert heimili er um 19.000 krónur en með þeirri tengingu munum við geta boðið allt að 100 MBita á sek. tengingu. Þróunin er hröð á þessu sviði og þegar hefur verið sýnt fram á að hægt er að ná 825 Mbita á sek. tengihraða með VDSL. Það verður hægt að uppfæra okkar kerfi til að ná slíkum hraða þegar þörf fyrir hann skapast og líklegt er að kostnaðurinn verði svipaður og sá kostnaður sem við erum nú að leggja í.

Til samanburðar má nefna að ef lesið er í ársreikninga Gagnaveitunnar þá hefur fyrirtækið lagt um 12 milljarða í lagningu ljósleiðara og náð til 30.000 heimila sem þýðir þá að hver tenging hefur kostað um 400.000 krónur. Uppbygging og fjárfesting Gagnaveitunnar er mjög framhlaðin og kostnaður liggur að mestu í jarðvinnslu og fjármagni því sóað með óhagkvæmum hætti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert