Páfagarður velur verndardýrling Netsins

Eftir þriggja ára umhugsun virðist Páfagarður vera við það að nefna heilagan Isidore frá Sevilla sem verndardýrling Netsins, Isidore hefur keppt við Gabríel erkiengil og heilagan Alfonso Maa frá Liguori, skáld frá 18. öld um titilinn en kaþólska kirkjan býst nú til að útnefna dýrlinginn eftir að nefnd á vegum Páfagarðs komst að þeirri niðurstöðu að heilagur Isidore hentaði best.

Heilagur Isidore sem var biskup í Sevilla snemma á sjöundu öld setti saman fyrstu eiginlegu alfræðiorðabókina fyrir um 1400 árum, bókin státaði af áður óþekktu magni af upplýsingum, 20 bindum um listir, trúmál, læknisfræði, arkitektúr og landbúnað meðal annars og þykir dýrlingurinn því henta vel til hlutverksins. Gabríel erkiengill kom einnig til greina en þar sem hann hefur þegar verið nefndur verndardýrlingur fjölmiðlunar og samskipta var hann útilokaður af Páfagarði. Spánskir kaþólikkar nefndu heilagan Isidore verndara veraldarvefsins árið 1999.

Einungis páfi sjálfur getur nefnt verndardýrlinga og tekur lokaákvörðun þrátt fyrir ráðleggingar nefndarinnar. Páfagarður er að undirbúa skjal um siðfræði og Netið og er búist við að dýrlingurinn verði nefndur við útgáfu skjalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert