CIA fimm árum á eftir í tölvutækni

Kvikmyndir sýna njósnara og liðsmenn leyniþjónustu sem tæknivætt fólk og ávallt með fullkomnustu tækin. Raunveruleikinn er allur annar. Niðurstöður nýlegrar leynilegrar rannsóknar hafa leitt í ljós að Bandaríska leyniþjónustan, CIA, er fimm árum á eftir öðrum íbúum veraldar hvað varðar nýtingu tækni, að því er segir í frétt BBC.

Í skýrslunni kemur fram að stjórnendur CIA noti Netið lítið, notist við frumstæða gagnabanka til að geyma upplýsingar og hafi engin þau forrit sem útbreidd eru í viðskiptaheiminum. Þá segir í skýrslunni að CIA óttist fremur tölvutækni en að líta á hana sem nytsamlega.

Skýrslan, sem unnin er af fyrrverandi CIA-manni, veitir nasasjón af störfum sérfræðinga CIA. Þeir notast lítið við þróaðan hugbúnað heldur fyrst og fremst símann og venjulega tölvu. Önnur tölvan er tengd við lokað kerfi leyniþjónustunnar og hin við Netið og tölvupóst.

Mestöll vinna leyniþjónustu er unnin í lokaða kerfinu. Það er hins vegar svo frumstætt að nánast er ógerningur að leita upplýsinga í því og þess vegna hringja leyniþjónustumenn frekar í kollega sína en að reyna að leita í kerfinu. Stærsta hindrunin við að þróa kerfið er þó spurningin um öryggi.

Sérfræðingar CIA hafa álitið nánast alla tölvutækni of varasama til að óhætt sé að nota hana til að meðhöndla upplýsingar leyniþjónustunnar. Margir þeirra vita ekki af upplýsingum sem þeim standa til boða á Netinu og öðrum upplýsingaveitum öðrum en CIA. Þessi litla tækninotkun veldur því að CIA er mun lengur en aðrar stofnanir að aðlaga sig nýjum kringumstæðum, t.a.m. ástandinu eftir hryðjuverkaárásina 11. september 2001. Bruce Berkowitz, höfundur skýrslunnar, segir að það hafi tekið CIA marga mánuði að koma á fót nýjum sérfræðingateymum vegna nýrrar hryðjuverkaógnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert