Einstaklingstölvur með sítengingu í mestri hættu

Nýr tölvuormur, W32/Msblast.A, leit dagsins ljós í fyrrakvöld og barst til Íslands á innan við tveimur klukkustundum. Að sögn Erlends S. Þorsteinssonar, verkefnastjóra hjá Friðriki S. Skúlasyni, er ástæðan fyrir þessari skjótu dreifingu sú að ormurinn dreifir sér ekki með tölvupósti, eins og oftast, heldur á milli tölva í gengum Netið.

"Þegar ormar eru sendir með tölvupósti er treyst á forvitni eða trúgirni þeirra sem fá undarlegan tölvupóst til þess að opna póstinn og viðhengin. Þá kemur ákveðin töf í dreifinguna. Þessi ormur hoppar hins vegar beint á milli véla."

Erlendur segir tölvuorminn notfæra sér galla sem hefur verið í Windows-stýrikerfunum síðan 1996. Gallinn uppgötvaðist ekki fyrr en í júlí sl. og er þar af leiðandi í öllum nýrri útgáfum Windows. Mjög margir tölvueigendur eru með þessi stýrikerfi en núna er hægt að uppfæra Windows í gegnum heimasíðu Microsoft sem lagar þennan galla.

"Allar tölvur hafa númer á internetinu og tölvuormurinn velur eitthvert númer og ef hann fær svar smitar hann tölvuna. Fyrirtæki sem eru með öryggismálin í lagi geta auðveldlega varist orminum. En svo eru allir einstaklingarnir sem eru sítengdir við internetið. Við höfum ekki enn heyrt um vél hjá almennum notanda sem ekki er smituð," segir Erlendur og bendir á að það sé mjög mikilvægt að uppfæra vírusvarnarforrit reglulega.

Eldveggur mikilvægur

Þá er skynsamlegt að koma sér upp eldvegg en hann er það eina sem getur komið í veg fyrir þennan orm. "Eldveggur fylgist með nettengingunni og hvort það komi einhverjar óeðlilegar tengingar frá öðrum vélum úti í heimi. Hann reynir að greina árásir og lokar jafnvel stundum á allar tengingar þannig að tölvan er ósýnileg á internetinu. Vírusvörn fylgist hins vegar með vírusum og ormum sem berast í tölvupósti eða með geisladiskum. Vírusvörn myndi grípa orminn en eldveggur myndi koma í veg fyrir að hann beitti árásinni í upphafi. Það er mjög undarlegt að nýjar tölvur séu ekki seldar með eldvegg."

Helstu afleiðingar tölvuormsins eru að það hægir mikið á internetinu auk þess sem Windows XP vélar frjósa eða fara í endalaust endurræsingarferli.

Aðfaranótt næstkomandi laugardags munu allar smitaðar tölvur ráðast á uppfærslukerfi Microsoft en Erlendur segir að textar í tölvuorminum bendi til að höfundum hans sé sérlega uppsigað við Microsoft. Erlendur bendir fólki á að verða sér úti um eldvegg en hann er m.a. hægt að nálgast á www.zonelabs.com.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert