Æ, ø og å senn notaðir í dönskum vefföngum

Frá og með næsta sunnudegi, geta netnotendur í Danmörku sótt um að fá að nota dönsku stafina æ, ø og å í vefföngum að því er segir í frétt Berlingske Tidende. Ástæða breytingarinnar er sú að samþykktur hefur verið evrópskur staðall, sem kveður á um notkun sértákna í vefföngum.

Segir Mogens Nielsen, framkvæmdastjóri Speednames, stærsta veffangafyrirtækis Danmerkur, að þetta muni auðvelda Dönum að finna það sem þeir leita að á netinu. Hann segir mikinn áhuga vera á kaupum á vefföngum sem innihalda danska stafi. Þessa dagana séu margir á höttunum eftir að kaupa vefföng sem líkleg þyki til vinsælda. Hann nefnir sem dæmi veffangið tandlæge.dk. „Margir hafa áhuga á vefföngum á borð við þetta, sem hægt er að nýta í markaðssetningu,“ segir hann. Hann segir að um þau vefföng, sem ekki fela í sér sérstakt vörumerki, gildi frumskógarlögmálið, þegar nýi staðallinn tekur gildi.

Fram kemur í frétt Berlingske Tidende, að ekki sé ólíklegt að veffangið www.rødgrødmedfløde.dk, eigi eftir að slá í gegn á næstunni. „Þetta er langt orð, en ég er viss um að einhver hefur fundið upp á því að taka það frá,“ segir Nielsen.

Samkvæmt niðurstöðum danskrar málnefndar, eru sérdanskir stafir í um fjórðungi hinna um það bil 65.000 orða sem dönsk tunga byggist á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert