Microsoft bregst við vaxandi áhuga á Linux með nýrri XP útgáfu

Von er á XP Lite í október.
Von er á XP Lite í október.

Bandaríska tæknifyrirtækið Microsoft hyggst senda frá sér nýja útgáfu Windows XP stýrikerfisins í von um að stöðva framgang Linux stýrikerfisins og hindra dreifingu á ólöglegri XP útgáfu víða um heim. Um er að ræða ódýrari útgáfu XP sem nefnist Windows XP Starter Edition. Gert er ráð fyrir að nýju útgáfunni verði dreift til landa í Asíu í október.

Slík útgáfa er ætluð tiltölulega óreyndum tölvunotendum í þróunarríkjum, að sögn BBC. Segir að Microsoft vilji koma til móts við notendur í fátækari ríkjum heims, sem nota útgáfur Linux stýrikerfisins í verulegum mæli. Þá gerir Microsoft sé vonir um að framleiðsla nýju XP útgáfunnar verði til þess að notendur sniðgangi ólöglegar útgáfur stýrikerfisins.

Nýja útgáfan, sem einnig hefur fengið nafnið XP Lite, styður lægri upplausn á skjá og möguleikar til þess að nettengja tölvur saman eru takmarkaðir. Þá takmarkar stýrikerfið einungis notkun á þremur forritum í einu. Búist er við því að XP Lite verði dreift til landa eins og Taílands, Malasíu, Indónesiu og fleiri Asíuríkja.

Windows er notað í rúmlega 90% tölvum, en Linux, sem byggir á opnum kóða, hefur vaxið ásmegin síðustu árin. Linux hefur einkum orðið ágengt í Rómönsku Ameríku og Asíu. Tölvuframleiðendur eru meðal annars farnir að taka tillit til þess að notkun á Linux hefur aukist verulega, en Hewlett Packard hefur framleitt tölvu með Linux stýrikerfi fyrir markaði í Kína og Indlandi.

XP Lite útgáfa fyrir Windows-notendur í Indónesíu.
XP Lite útgáfa fyrir Windows-notendur í Indónesíu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert