Vísindamenn nálægt því að búa til náttúrulegar brjóstafyllingar

Náttúrulegu fyllingarnar halda betur lagi sínu en sílikonfyllingar auk þess …
Náttúrulegu fyllingarnar halda betur lagi sínu en sílikonfyllingar auk þess sem engin hætta er á að þær rifni eða leki. AP

Bandarískir vísindamenn segja að þeim hafi tekist að búa til náttúrulegar brjóstafyllingar með því að nota stofnfrumur úr mönnum. Hópur vísindamanna við Illinois-háskóla tók stofnfrumur sem áttu að verða fitufrumur og ræktuðu þær og bjuggu til fyllingar úr þeim. Hægt er að móta þær á ýmsan hátt og halda þær lagi sínu og stærð mun betur en gervifyllingar. Þá er engin hætta á að þær rifni eða leki, að sögn vísindamannanna.

Aðrir vísindamenn hafa gert tilraunir með að nota fituvef manneskjunnar ásamt stofnfrumum til að búa til náttúrulegar fyllingar. Dr. Jeremy Mao, sem stjórnaði rannsókninni, segir að vísindamennirnir hafi tekið stofnfrumur úr beinmerg heilbrigðra sjálfboðaliða með nál. Slíkar frumur geta orðið að ýmsum gerðum fruma, allt eftir því hvernig þær eru ræktaðar.

Vísindamennirnir settu frumurnar í sérstök hylki og ræktuðu við svipaðar aðstæður og umhverfi og fitufrumur í mannslíkamanum. Hylkjunum var komið fyrir undir húð átta músa. Eftir fjórar vikur voru stofnfrumurnar orðnar að fitufrumum. Fyllingarnar breyttust ekkert en til samanburðar má nefna að hefðbundnar fyllingar geta skroppið saman um allt að 40-60% með tímanum, að sögn vísindamannanna. Dr. Mao telur að þessi tækni geti valdið byltingu í lýta- og fegrunarlækningum, bæði hvað varðar brjóstastækkanir og til dæmis aðgerðir í andliti. „Sjúklingar munu geta valið hvort þeir vilji stofnfrumufyllingu eða gervifyllingu,“ segir Mao.

Mao kynnti niðurstöðurnar á ráðstefnu samtaka bandarískra vísindamanna í Washington en þær verða einnig birtar í tímaritinu Tissue Engineering.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert