Ný Xbox á markað um jólin

Bandaríska tölvufyrirtækið Microsoft ætlar að setja nýja útgáfu af leikjatölvunni Xbox á markað um næstu jól. Tölvan hefur fengið nafnið Xbox 360 og var hún kynnt á tölvusýningu í Japan í dag.

Hönnuðir nýju leikjatölvunnar hafa hent svarta litnum fyrir róða enda er nýja tölvan skínandi silfurgrá og kassinn straumlínulagaður. Í tölvunni er 20 gígabita harður diskur. Gengur hún á 3,2 GHz örgjörva og með 512 megabita vinnsluminni. Að undanskildu DVD drifi eru tvær raufar fyrir aukaminni og tvö USB tengi fyrir aukahluti. Þá er gefinn möguleiki á þráðlausri fjarstýringu. Hægt verður að nettengja tölvuna og spila leiki við aðra notendur Xboxins um allan heim.

Stýripinnar nýju tölvunnar eru með svipuðu sniði og áður en hvítir að lit og þráðlausir.

Enn er ekki vitað hvort unnendur gamla Xboxins geta spilað gömlu leikina sína í nýju tölvunni.

Þá hefur verðmiði ekki enn verður settur á gripinn en búist er við að nýja leikjatölvan muni kosta um 300 dollara, eða um 40.000 íslenskar krónur. Væntanlega verður hún eitthvað dýrari komin hingað til lands.

Búist er við að keppinautar Microsoft, Sony og Nintendo, opinberi nýjustu leikjatölvur sínar í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert