Engar vísbendingar um að rafmagnstæki og rafstöðvar valdi veikindum

Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að nálægð við rafstöðvar eða rafmagnstæki valdi veikindum fólks, að því er vísindamenn á vegum bresku heilsuverndarstofunnar (HPA) greina frá.

Þótt fólk verði vart við afdráttarlausa og óþægilega kvilla séu ekki fyrir hendi vísbendingar um að tengsl séu á milli þeirra og nálægðar við rafmagn.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Svokölluð rafmagnsviðkvæmni er kvilli sem ýmsir telja að rekja megi til rafsegulsviðs sem fylgir rafmagnsveitum. Ekki liggur fyrir hversu margir eru haldnir þessum kvilla, en hann lýsir sér ýmist sem kláði og roði í húð eða þreyta og höfuðverkur.

Fulltrúi HPA segir að erfitt hafi reynst að endurskapa kvillana í rannsóknarstofu þar sem frásagnir sjúklinga hafi verið misvísandi og jafnvel stangast á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert