Hvað þýðir LCD, plasma og háskerpa?: Ódýr plasmaskjár eða eldra sjónvarp?

Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is
HARALDUR Ólafsson, sölumaður hjá Sjónvarpsmiðstöðinni, segir fólk venjulega ekki skilja hvað allt þetta þýðir og margir komi við hjá þeim til að fræðast um muninn á LCD og plasma. "Bæði hafa sína kosti og galla, það er mikið horft á LCD í dag en ef fólk ætlar í sambærilega stærð í því og í plasmanu er LCD orðið töluvert dýrara. Ef fólk er að kaupa stór tæki þá er það plasmi en ef það ætlar í miðlungs eða lítið tæki er það LCD. Það selst mest af 32 tomma LCD og 42 tommu plasma, áður fyrr var fólk með 25 tommu tæki í mesta lagi. Fyrir venjulega útsendingu, á svona stórum skjá, verður myndin ekkert voðalega góð. Það eru margir að kaupa sér háskerpusjónvarp því þeir vilja vera viðbúnir því þegar útsendingin breytist."

Haraldur segir mikinn mun á myndgæðum á tækjum eftir verði.

"Það er mikill munur á ódýrasta og dýrasta tækinu. Margir skoða þunnu tækin því það er hægt að hengja þau upp á vegg og þau taka ekki mikið pláss í stofunni. Fólk er líka að búa sig undir framtíðina, kaupir tæki með miklum myndgæðum og flottu útliti."

Ráðleggja fólki að bíða

Grétar Óskarsson hjá sjónvarpsverkstæðinu Litsýn segir að það sé mikil þróun og örar breytingar í gangi í sjónvörpum. "Því er spáð að plasmatækin detti út og LCD taki alveg við og jafnvel einhver ný tækni. Ég ráðlegg fólki að hanga á gömlu tækjunum eins og það getur, því gott sjónvarpstæki er mjög dýrt og tæknin er á mikilli ferð.

Tæknin er dýr, góð tæki í dag sem gefa mjög góða mynd kosta líklega 300-400 þúsund. Það er hægt að fá tæki á 100-150 þúsund krónur en þá er það með lélegri mynd en gömlu tækin. Gömlu sjónvarpstækin gefa nefnilega betri mynd en ódýrari flatskjástækin." Grétar segir að þeir hjá Litsýn ráðleggi sínum viðskiptavinum að bíða og sjá hvað setur. "Þessi dýrustu tæki eru með virkilega góðri mynd en þau eiga eftir að detta niður í verði eftir einhvern tíma."

Skoða myndgæðin vel

Hann ráðleggur þeim sem eru að skoða ný tæki að skoða myndina í tækinu við eðlilegar aðstæður, ekki í búðinni. "Flestar búðir eru með dvd-myndir í gangi í tækjunum og því digital-gæði og þá sést ekki rétt mynd. Þegar fólk fer heim með tækið og tengir það við gamla loftnetið hrekkur það við því myndin er ekki eins skýr og í búðinni.

Við fáum nokkuð af útköllum þar sem fólk biður okkur að ná skýrri mynd á plasmatæki, þá er ekkert annað að en að tækið sjálft er ekki nógu skýrt. Það er ekki nóg að kaupa bara plasmatæki, fólk er ekki að kaupa mikil myndgæði á 100-150 þúsund krónur. Við ráðleggjum viðskiptavinum okkar að bíða með að kaupa sér tæki nema þeir hafi efni á tæki á yfir 300 þúsund krónur."

Grétar segir að það hafi dregist saman að fólk komi með tæki í viðgerð. "Það er þó alltaf eitthvað en það er aðallega eldra fólk, þ.e fjörutíu ára og eldra, sem kemur með tæki.

Við fáum allar tegundir af sjónvarpstækjum í viðgerð en þó aðallega stærri og dýrari gerðirnar, - flatskjáirnir bila líka."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert