MySpace vinsælla en Google

Bandaríska hljómsveitin Great Lakes Myth Society kynnir tónlist sína á …
Bandaríska hljómsveitin Great Lakes Myth Society kynnir tónlist sína á vefsvæðinu MySpace. AP

Vefsvæðið MySpace er vinsælla en leitarvél Google. Þótt einungis séu liðin tvö ár síðan vefsvæðið var gert virkt hafa notendur MySpace margfaldast og eru notendur þess rúmlega 2 sinnum fleiri en notendur leitarvélar Google. Vefsvæðið hefur nýst m.a. tónlistarmönnum í Bandaríkjunum við að koma tónlist sinni á framfæri.

Að sögn vefútgáfu bandarísku fréttastofunnar CNN felst galdurinn í vinsældum MySpace í því að notendur geta búið til sitt eigið vefsvæði og sniðað það eftir eigin óskum. MySpace er sérstaklega vinsælt á meðal áhugatónlistarmanna og annarra með áhugamál tengd tónlist. „Þetta er eins og að vera á ráðstefnu um tónlist allan sólarhringinn,“ sagði Greg McIntoch, 27 ára gítarleikar frá Ann Arbor í Michiganríki í Bandaríkjunum í samtali við CNN.

Margir notenda MySpace eru ungt fólk sem kýs fremur að nota vefsvæðið til samskipta en tölvuskeyti en mörgum þykir mun þægilegra að setja tilkynningar til vina og kunningja á vefsvæði á MySpace þar sem aðgangur er opinn fyrir ákveðinn hóp.

Velgengni MySpace vakti áhuga ástralska fjölmiðlaeigandans Ruperts Murdoch og keypti hann svæðið á 580 milljónir dollara af stofnanda þess á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert