Vefsíða sænsku ríkislögreglunnar óstarfhæf vegna árása

Vefsíða ríkislögreglunnar í Svíþjóð hefur samkvæmt sænska dagblaðinu Aftonbladet legið niðri frá því á fimmtudagskvöld vegna svokallaðra DOS-árása, eða álagsárása. Grunur leikur á að árásirnar tengist lokun vefsíðunnar Pirate Bay, en lögreglan gerði upptæka netþjóna síðunnar og allan tölvukost aðstandenda hennar fyrir fáeinum dögum.

Vefsíðan polisen.se, sem er vefsíða ríkislögregluembættisins í Svíþjóð, hefur legið niðri frá því á föstudag og ekki hefur tekist að gera hana aðgengilega á ný. Tölvupóstsamskipti lögreglunnar ganga einnig erfiðlega vegna árásanna.

Linda Widmark hjá ríkislögreglunni segir, að enn sé ekki vitað hverjir standi að baki árásinni en að rannsókn væri hafin og muni hún væntanlega upplýsa um uppruna árásanna.

Marga grunar þó að árásirnar tengist aðgerðum lögreglu á miðvikudag, þar sem vefsíðunni Pirate Bay var lokað. Síðan var ein stærsta BitTorrent síða heims, en þar gátu tölvunotendur sótt skrár sem vísuðu á efni á borð við tónlist, kvikmyndir og forrit sem aðrir tölvunotendur deildu með sér.

Mikið af efninu sem í boði var á síðunni er höfundarréttarvarið.

Álagsárásir, eða Denial of Service (DOS) árásir, fara þannig fram, að mikill fjöldi tölva heimsækir vefsvæði svo netþjónar anna ekki eftirspurn og hætta að starfa eðlilega vegna álagsins. Tölvurnar sem um ræðir eru oftar en ekki sýktar af tölvuveirum og gera því árásirnar án vitundar eigenda sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert