Víetnam vill herða reglur um netnotkun

Gestir á netkaffihúsi í Hanoi.
Gestir á netkaffihúsi í Hanoi. AP

Stjórnvöld í Víetnam áforma að herða reglur um netnotkun og gera eigendur svonefndra netkaffihúsa ábyrga fyrir því ef gestir verða uppvísir að því að skoða klám á Netinu eða fara inn á netsíður sem innihalda áróður gegn stjórnvöldum.

Phan An Sa, starfsmaður menningar- og upplýsingaráðuneytis landsins, segir að þess verði krafist að eldveggir verði settir upp til hindra aðgang að netsíðum sem taldar séu innihalda niðurrifsáróður og séu skaðlegar í ljósi öryggishagsmuna. Sagði Sa að gerðar yrðu ráðstafanir til sía út allar netsíður sem innihalda andvíetnamskan áróður og eru á lista sem lögreglumálaráðuneyti landsins hefur sett saman. Einnig yrði netþjónustum gert kleift að sía út klám.

Sa sagði við blaðið Lao Dong að hann vildi einnig setja reglur um að eigendum netkaffihúsa verði gert að kaupa sérstök leyfisbréf og gangast undir rannsókn á einkahögum og fjármálum.

Tillögurnar koma í kjölfar þriggja vikna rannsóknar á starfsemi netkaffihúsa í Víetnam. Þarlendir rithöfundar og menntamenn nota Netið í auknum mæli til að dreifa fréttum eða skoðunum sem ekki fá inni í öðrum fjölmiðlum sem eru undir ströngu eftirliti ríkisins. Í kjölfarið hafa stjórnvöld reynt að takmarka aðgang að Netinu til að koma í veg fyrir að „skaðlegu og eitruðu" efni sé dreift þar.

Fyrr í þessum mánuði létu stjórnvöld loka einni af vinsælustu netsíðum landsins, ttvnonline.com, og sögðu að ekki væru fyrir hendi leyfi fyrir starfseminni og innihaldið bryti í bága við prentlög og afbakaði sannleikann.

Í rannsókninni á netkaffihúsunum kom í ljós að flestir gestir á um 4.000 slíkum stöðum um allt landið eru á aldrinum 14-24 ára. Aðeins um 10% þeirra nota Netið til að skoða netsíður og þar af fer um helmingurinn inn á klámsíður eða síður með andvíetnömskum áróðri.

Alþjóðleg mannréttindasamtök hafa lengi sakað stjórnvöld í Víetnam um að kæfa alla pólitíska andstöðu með strangri ritskoðun og með því að hneppa gagnrýnendur í fangelsi.

Í júní á þessu ári voru aðeins 175 þúsund skráðir netnotendur í Víetnam. Þetta var 30% aukning frá júní á síðasta ári. En talið er að að um 600 þúsund af 79 milljónum íbúa landsins, noti Netið reglulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert