Mánudagur, 12. apríl 2010

Jón Böðvarsson

Jón Böðvarsson fæddist í Reykjavík 2. maí 1930. Hann lést 4. apríl 2010. Foreldrar hans voru Böðvar Stephensen Bjarnason, húsasmíðameistari, f. 1. október 1904, d. 27. október 1986, og k.h. Ragnhildur Dagbjört Jónsdóttir, húsmóðir, f. 31. mars 1904, d. 23. júlí 1993. Foreldrar Böðvars voru Bjarni Jónsson, bóndi, og Sigríður Jónsdóttir, í Gerði í Innri-Akraneshreppi. Foreldrar Ragnhildar voru Jón Welding, bóndi, og Soffía Jónsdóttir, á Rein í Innri-Akraneshreppi. Alsystkini Jóns eru Vilhelmína Sigríður, húsmóðir, f. 13. júní 1932, d. 29. júní 2007, Valborg Soffía, fyrrv. leikskólakennari, f. 18. ágúst 1933, Bjarni, trésmíðameistari, f. 13. nóvember 1934, Böðvar, trésmíðameistari, f. 23. júní 1936, og Sigmundur, lögfræðingur, f. 29. september 1937. Hálfsystur Jóns, samfeðra, eru tvíburarnir Alberta Guðrún, húsmóðir, f. 19. júní 1942, og Guðný Þóra, hárgreiðslumeistari og bankastarfsmaður. Jón kvæntist 26. nóvember 1966 eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur, fyrrv. aðstoðarskólastjóra í Engjaskóla í Reykjavík og kennara í Hjallaskóla í Kópavogi, f. 1. nóvember 1943. Foreldrar Guðrúnar Erlu voru Björgvin Kristinn Grímsson, forstjóri heildverslunarinnar H.A. Tulinius, f. 14. sept. 1914, d. 5. jan. 1992, og k.h. Ásta Margrét Guðlaugsdóttir, húsmóðir og kjólameistari, f. 12. júlí 1916, d. 22. ágúst 1983. Sonur Jóns og Guðrúnar er Böðvar, framkvæmdastjóri Byggingafélags námsmanna og formaður bæjarráðs í Reykjanesbæ, f. 31. júlí 1968. Sambýliskona Böðvars er Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir, ritari, f. 16. júlí 1983. Böðvar var áður kvæntur Önnu Karlsdóttur Taylor. Börn þeirra eru: Jón, f. 15. apríl 1993, og Ása, f. 31. mars 1998. Sonur Guðrúnar og fóstursonur Jóns er Björgvin Jónsson, hæstaréttarlögmaður og alþjóðlegur skákmeistari, f. 17. mars 1964, kvæntur Sigríði Dóru Magnúsdóttur, yfirlækni, f. 13. maí 1959. Dóttir þeirra er Margrét Erla, f. 23. apríl 1993. Dætur Jóns fyrir hjónaband eru: Sigríður, kennari og rekstrarfræðingur, f. 2. maí 1963. Synir hennar eru Jón Halldór Arnarson, f. 27. október 1982, og á hann einn son, og Sigmar Arnarson, f. 18. maí 1987, Ásthildur, tækniteiknari, f. 6. október 1966. Börn hennar eru Hermann Þór Ómarsson, f. 27. júní 1988, og Kristrún Ósk Hjartardóttir, f. 12. febrúar 1994. Jón fæddist í Reykjavík og ólst þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1951, kennsluprófi í íslensku og Íslandssögu 1955, cand mag. prófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1964 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá HÍ 1973. Jón var kennari við gagnfræðaskólastig í Reykjavík og Kópavogi flest ár frá 1955-1966, var kennari við Menntaskólann í Hamrahlíð frá 1966-1976 og skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1976 til ársloka 1984. Hann var ritstjóri Iðnsögu Íslendinga á árunum 1985-1996. Jón kenndi síðan á námskeiðum hjá Mími-Tómstundaskólanum og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í mörg ár, hélt fjölda námskeiða og fyrirlestra um íslenskar fornsögur og stóð fyrir fjölmörgum ferðum á söguslóðir fornsagna bæði hérlendis og erlendis. Hann átti því mikinn þátt í að endurvekja og viðhalda almennum áhuga á íslenskum fornritum. Jón hefur í gegnum tíðina gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum. Hann var formaður ÍFRN 1951-52, Mímis, félags stúdenta í íslenskum fræðum 1954, Félags róttækra stúdenta og fulltrúi þess í stúdentaráði HÍ 1954-55. Hann var ritari Taflfélags Reykjavíkur um skeið, forseti Æskulýðsfylkingarinnar 1956-58, formaður Félags gagnfræðaskólakennara í Kópavogi 1960-61, í miðstjórn Sósíalistaflokksins 1962-64, formaður Félags háskólamenntaðra kennara 1966-67, í stjórn Félags íslenskra fræða 1967-69, í landsprófsnefnd 1968-73, formaður Félags menntaskólakennara 1976-77, og ritari Sambands iðnfræðsluskóla og fulltrúi þess í iðnfræðsluráði 1980-1982. Jón samdi og gaf út námsefni í íslensku og sögu, handbækur og ljóðabók og skrifaði fjölda blaðagreina um skólamál, skák, íþróttir og stjórnmál. Viðtalsbók Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Jón, Sá á skjöld hvítan, kom út 2009. Jón var fyrsti heiðursfélagi Skólameistarafélags Íslands, 1979, fékk verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2002, var Paul Harris-félagi í Rotarýklúbbi Breiðholts 1993 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1994 fyrir fræðslustörf og þátt í að endurvekja almennan áhuga á íslenskum fornritum. Jón fékk heiðursverðlaun við afhendingu Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010. Útför Jóns fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 12. apríl 2010, og hefst athöfnin kl. 13.

Bróðurkveðja.

Bróðir minn Jón Böðvarssonar verður lagður til hinstu hvílu í dag.  Á tímamótum sem þessum hvarflar hugurinn til baka; - allt aftur til barnæsku. Þrátt fyrir alvarleg veikindi kom kallið okkur systkinunum á óvart, við höfðum ekki gert okkur grein fyrir alvarleika málsins enda ekki í anda Jóns að bera vandamál sín á torg.

Jón var elstur okkar systkinanna og sá fyrsti til að kveðja, en hópurinn sex að tölu, fæddist á árunum 1930 til 1937 og voru því ekki mörg árin sem skildu á milli okkar. Óhætt er að fullyrða að Jóni fórst vel í hlutverki fyrirliðans sem kom sér vel þegar tími foreldranna fór í að klæða og fæða allan hópinn svo ekki verði minnst á að halda að þeim ástundun í námi. Það má því segja að strax í bernsku hafi grunnurinn verið lagður en Jón valdist í lífi sínu til forystu á mörgum sviðum í leik og starfi. 

Þegar hugurinn er látinn reika koma matmálstímarnir upp í hugann, fyrst á Miðstrætinu og síðar í Efstasundi 54 þangað sem fjölskyldan flutti á árinu 1944.  Það var regla á heimilinu að ekki mátti tala meðan matast var en úr því var bætt svo um munaði eftir matinn en þá var gammurinn látinn geysa  meðan við krakkarnir vöskuðum upp og gengum frá.  Samkomur þessar gengu ekki undir nafninu fundir, en ljóst var að allir höfðu málfrelsi. Mamma var potturinn og pannan í umræðunum enda hafði hún ákveðnar skoðanir á þeim hlutum sem hún taldi skipta máli í lífinu. Hún var verkstjóri af lífi og sál, enda húsmóðir á heimilinu en ekki vinnukona. Ég tel að hún hafi haft mikil áhrif á okkur öll en ekki síst afstöðu okkar strákanna til kvenna almennt. Við bræður töluðum oft um þessar björtu æskustundir.

Ekki er ætlunin með þessum fátæklegu kveðjuorðum að teikna upp mynd af því bræðralagi sem myndaðist af sjálfu sér; - af foreldrum okkar, venjulegu fólki og uppeldi í farvegi þess tíma á fimmta áratugnum. Ég get þó ekki stillt mig um að minnast á aðra mynd sem kemur upp í hugann þegar leitað er til liðinnar tíðar, en hún er af Jóni bróður er hann birtist fyrirvaralaust í dyrum herbergis síns og bað mig um að finna sig. Þarna stóð hann með stílabók í hendinni, þá nýbyrjaður í námi sínu við Menntaskólann í Reykjavík; - líklega sá eini í götunni sem valdist til langskólanáms, og lýsti nýrri uppgötun sinni fyrir mér, nefnilega þeirri að allar stefnur og straumar hvort heldur sem væru innan stjórnmála eða trúarhreyfinga stefndu að sama marki,  að gera heiminn betri en hann er. Síðan bætti hann við: „Það er ekki sanngjarnt að refsa fólki fyrir að vera trútt sinni sannfæringu“. Ég geri ráð fyrir að svarið við speki hins unga menntaskólapilts hafi verið frekar þunnt enda ég aðeins 10 eða 11 ára gamall þegar þetta var.

Ég veit að bróðir minn var gæfumaður í starfi og einkalífi sínu enda hefur hann margoft sagt frá því bæði í ræðu og riti að heppnin hafi sífellt fylgt sér. Hann hafi átt frábæra eiginkonu og vel gerð börn. Far þú í friði bróðir sæll, ég mun sakna þín sárlega. Ég votta ástkærri eiginkonu Jóns, börnum og barnabörunum mína dýpstu samúð og vona að sá sem öllu ræður styðji þau í sorg sinni.

Böðvar Böðvarsson, húsasmíðameistari