Fór bara allt í einu að falla fyrir mér

Birkir Bjarnason er í harðri baráttu með Pescara um að …
Birkir Bjarnason er í harðri baráttu með Pescara um að komast í ítölsku A-deildina. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, segist vel geta hugsað sér að spila áfram með ítalska liðinu Pescara næstu árin en hann hefur átt góðu gengi að fagna með því í vetur.

Birkir hefur leikið með Pescara frá 2012, bæði í A- og B-deildinni, en lék þó með Sampdoria í A-deildinni 2013-14. Hann er 26 ára og hóf meistaraflokksferilinn með Viking Stavanger í Noregi aðeins 17 ára gamall, og hefur einnig spilað með Bodö/Glimt og belgíska liðinu Standard Liege.

„Ég kann mjög vel við mig hjá félaginu og á Ítalíu, líður mjög vel hjá Pescara og get alveg hugsað mér að halda áfram. Ég er samningsbundinn félaginu næstu tvö árin í viðbót og er því bara rólegur, og sé til hvort eitthvað sérstakt kemur uppá í sumar,“ sagði Birkir þegar mbl.is ræddi við hann á hóteli landsliðsins í Astana í dag.

Fínt tímabil í heildina

Hann hefur verið á skotskónum með Pescara undanfarið og skorað fimm mörk eftir áramót en liðið er í harðri og jafnri baráttu margra liða um að komast upp í ítölsku A-deildina.

„Tímabilið hefur verið fínt í heildina. Við byrjuðum reyndar illa sem lið en síðan höfum við verið á þó nokkurri sigurbraut eftir jól og erum núna komnir í umspilssæti. Mér sjálfum hefur gengið mjög vel allt tímabilið og hef svo bætt því við að fara að skora mörk eftir áramótin,“ sagði Birkir.

Hann sagði að markaskorið hjá sér hefði ekki komið til útaf neinum tilfæringum. „Nei, alls ekki, þetta fór bara allt í einu að falla fyrir mér. Sjálfstraustið eykst smám saman og ég hef komið mér meira inn í vítateig andstæðinganna en áður og held að það hafi gert gæfumuninn.

Ég spila á vinstri kantinum, eins og ég hef gert lengst af, þó ég hafi farið í ýmsar stöður með landsliðinu. Þetta er mjög fín staða, ég kann vel við mig þar og hún gefur mér oft færi á að komast inn í vítateiginn og freista þess að skora,“ sagði Birkir.

Eigum alveg möguleika á að fara upp

Hann sagði að baráttan til vorsins yrði mjög hörð og vissulega ætti Pescara möguleika á að fara upp í A-deildina en tvö efstu liðin fara beint upp og næstu sex fara í langt umspil um eitt sæti. „Við erum bara sex stigum frá öðru sætinu og gætum ennþá farið beint upp, en Bologna, sem er í öðru sætinu, er með geysisterkt lið svo þetta verður erfitt. En möguleikinn er vissulega til staðar,“ sagði Birkir Bjarnason, sem leikur sinn 37. landsleik á morgun þegar Ísland mætir Kasakstan í undankeppni Evrópumótsins.

Nánar verður rætt við Birki um landsleikinn gegn Kasakstan í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert