„Mér finnst gott að vera í sveitinni“

Þorsteinn Már Ragnarsson (til hægri).
Þorsteinn Már Ragnarsson (til hægri). mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteini Má Ragnarssyni, fyrirliða Víkings Ólafsvíkur, var létt eftir leik Stjörnunnar og Víkings í Pepsi-deild karla þrátt fyrir 4:1-tap. Þar sem Fylkir tapaði fyrir KR á sama tíma í lokaumferðinni halda Ólafsvíkingar sæti sínu á meðal þeirra bestu.

„Við erum ánægðir að ná markmiði okkar, sem var að halda sér í deildinni. Við byrjuðum mótið frábærlega en seinni hluti mótsins er eitthvað sem við þurfum að skoða. Það er langt frá því að vera nógu gott fyrir Pepsi-deildina,“ sagði Þorsteinn við mbl.is eftir leikinn í dag.

Ólsarar voru með 18 stig að lokinni fyrri umferð. Þeir fengu hins vegar bara þrjú stig í seinni umferðinni en það dugði til að halda sér í efstu deild.

Hann sagði að leikurinn í dag hefði ekki verið góður af hálfu Víkinga. „Við vorum alls ekki nógu góðir. Við erum að lifa á því sem við gerðum í byrjun móts og erum stoltir af byrjuninni.“

Fyrirliðinn verður áfram á heimaslóðum á næsta tímabili. Hann er uppalinn á Snæfellsnesi og gekk aftur til liðs við Víking eftir síðasta tímabil eftir dvöl hjá KR. „Ég verð áfram. Mér finnst gott að vera í sveitinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert