Langþráður sigur Fylkis á KR

Hákon Ingi Jónsson, til hægri, er kominn aftur í Fylki.
Hákon Ingi Jónsson, til hægri, er kominn aftur í Fylki. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Fylkismenn lögðu KR-inga að velli, 2:1, á Reykjavíkurmóti karla í knattspyrnu í Egilshöllinni í kvöld og það var svo sannarlega langþráður sigur hjá Árbæjarliðinu á Vesturbæingum.

Fylki hafði ekki tekist að vinna KR á þessu móti í þrjátíu ár, eða frá árinu 1987 þegar Árbæingarnir, sem þá léku í C-deild, unnu óvæntan sigur í viðureign liðanna.

Frá þeim tíma höfðu liðin mæst í 21 skipti á mótinu, KR hafði unnið sautján viðureignir og fjórum lyktað með jafntefli.

Hákon Ingi Jónsson skoraði bæði mörk Fylkis í kvöld en hann er kominn aftur til liðsins eftir ársdvöl hjá HK þar sem hann skoraði grimmt í 1. deildinni á síðasta ári.

Þá vann Fram sigur á ÍR, 2:1, í sama riðli en Kristófer Jacobsen Reyes og Alex Freyr Elísson gerðu mörk Framara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert