Ekkert alvarlegra en þrjú töpuð stig

Hlín Eiríksdóttir úr Val og Hulda Björg Hannesdóttir úr Þór/KA …
Hlín Eiríksdóttir úr Val og Hulda Björg Hannesdóttir úr Þór/KA berjast um boltann í Boganum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Þetta er bara fótboltaleikur sem tapast, bara þrjú töpuð stig og ekkert alvarlegra en það," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir fyrirliði Vals við mbl.is eftir 1:0 tap gegn Þór/KA í fyrsta leik Pepsi deildar kvenna í knattspyrnu á tímabilinu í Boganum á Akureyri í kvöld. 

Valskonur pressuðu stíft á mark heimakvenna í seinni hálfleik en þrátt fyrir þungar sóknir og ellefu horn tókst þeim ekki að skora. Aðspurð um þetta sagði Margrét:

„Við vorum óheppnar við markið og þetta kemur bara í næsta leik. Stundum dettur þetta fyrir mann og stundum ekki en þetta datt bara ekki fyrir okkur í dag.“

Margrét er þó bjartsýn fyrir tímabilið og líst vel á mótið sem er fram undan.

„Þetta eru allt hörkuleikir í þessari deild. Það skiptir ekki máli við hvern maður spilar, þetta verða allt hörku leikir. Maður þarf bara að spila sinn besta leik til að vinna og við gerðum það ekki í dag en við gerum bara betur á miðvikudaginn," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert