Það veit enginn neitt um hópinn

Hulda Hrund Arnardóttir og Agla María Albertsdóttir í baráttunni síðasta …
Hulda Hrund Arnardóttir og Agla María Albertsdóttir í baráttunni síðasta sumar. mbl.is/Eggert

Hulda Hrund Arnarsdóttir hefur fengið fjölda nýrra samherja hjá Fylki í vetur. Liðinu er spáð fallsæti í Pepsideildinni en Hulda segir leikmenn staðráðna í að afsanna þá spá.

Fylkir mætir Grindavík í 1. umferð tímabilsins kl. 19.15 í Árbæ. Nýliðum Grindavíkur er ekki spáð falli eftir að hafa styrkt lið sitt með góðum, erlendum leikmönnum, en Fylkir kveður deildina ef spáin reynist sönn:

„Þetta kemur svo sem ekki á óvart. Það veit enginn neitt um hópinn sem við erum komin með. Undirbúningstímabilið getur gengið upp og niður, snýst ekki um að sýna sínar bestu hliðar og við vorum bara að prófa okkur saman,“ segir Hulda, en Fylkir lék í B-deild Lengjubikarsins og tapaði ekki leik þar.

Mikill fjöldi nýrra leikmanna hefur prófað sig í Fylkisbúningnum í vetur og fróðlegt verður að sjá hvernig þetta unga lið spjarar sig í Pepsideildinni:

„Elsti leikmaður liðsins er fæddur 1989 en svo erum við með leikmenn alveg niður í að vera fæddar 2001. Þetta er ungt en efnilegt lið,“ segir Hulda.

„Það er gott að fá svona ungar og ferskar stelpur inn sem vilja bæta sig, í staðinn fyrir þær sem voru kannski orðnar þreyttar á þessu. Það er alveg gott að fá svona nýja og unga leikmenn þó að það geti haft sína galla. Við vitum hvað við getum og ætlum að sýna þeim sem spá okkur svona neðarlega að það sé ekki rétt,“ bætir Hulda við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert