„Ákveðnar þreifingar í gangi“

Logi Ólafsson gæti orðið næsti þjálfari Víkings.
Logi Ólafsson gæti orðið næsti þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til tíðinda gæti dregið í þjálfaramálum karlaliðs Víkings í knattspyrnu í dag en Víkingar leita nú eftirmanns Milosar Milojevic sem hætti óvænt sem þjálfari Víkings á föstudaginn og er orðinn þjálfari Breiðabliks.

„Það eru ákveðnar þreifingar í gangi og við vonumst til að geta klárað þessi mál í dag,“ sagði Haraldur V. Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við mbl.is.

Vefsíðan fótbolti.net segist hafa heimildir fyrir því að Logi Ólafsson sé líklegur til að taka við þjálfun Víkings og spurður út það sagði Haraldur;

„Ég geti ekki sagt til um það hvort Logi sé líklegri en einhver annar. Ég get alveg sagt að Logi er eitt af kannski tíu nöfnum sem við erum með á blaði. Það gæti dregið til tíðinda í þessum málum eftir hádegi. Það er stutt í næsta leik. Við höldum til Akureyrar á föstudaginn og mætum KA á laugardaginn og það væri gott ef það yrði kominn maður í brúna fyrir þann leik,“ sagði Haraldur.

Logi þjálfaði Víking frá 1990-92 og undir hans stjórn varð liðið Íslandsmeistari árið 1991.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert