Dagný með í Washington

Dagný Brynjarsdóttir í leik með Portland á dögunum.
Dagný Brynjarsdóttir í leik með Portland á dögunum. Ljósmynd/Portland Thorns

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, lék sinn annan leik á tímabilinu í bandarísku atvinnudeildinni í gærkvöld þegar Portland Thorns sótti heim lið Washington Spirit.

Dagný missti af fyrstu mánuðum tímabilsins vegna meiðsla en er nýbyrjuð að leika með liðinu og kom inn á sem varamaður á 64. mínútu. Washington skoraði í fyrri hálfleiknum og hélt út með 1:0 sigri. Portland mátti sætta sig við annað tap sitt í röð og er nú í fjórða sæti deildarinnar.

Dagný er í íslenska landsliðinu sem leikur á EM í Hollandi í næsta mánuði en tvísýnt var lengi um hvort hún yrði orðin leikfær. Hún getur væntanlega leikið næstu tvo leiki Portland áður en hún kemur til móts við íslenska landsliðið sem hefur æfingar fyrir EM 3. júlí. Hún mun missa af 3-4 leikjum Portland en bandaríska deildin er á fullu á meðan EM stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert