Nær FH þriðja sigrinum?

Mikkel Maigaard, Kristján Flóki Finnbogason og Mees Siers í leik …
Mikkel Maigaard, Kristján Flóki Finnbogason og Mees Siers í leik FH og ÍBV í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍBV tekur á móti FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á Hásteinsvelli í dag og þar er í húfi hvort liðanna nær að vera í efri helmingi deildarinnar að níu umferðum loknum.

Íslandsmeistarar FH hafa aðeins unnið tvo af fyrstu átta leikjum sínum en það er versta byrjun FH frá 2002 þegar liðið vann tvo af fyrstu níu leikjunum og var í fallsæti eftir fyrri umferð Íslandsmótsins. FH hefur hins vegar gert fimm jafntefli og aðeins tapað einum leik, og nái Hafnfirðingarnir sigri í Eyjum í dag fara þeir upp í fjórða eða jafnvel þriðja sætið. En með tapi eru allar líkur á að þeir detti niður fyrir miðja deild.

FH er með 11 stig í 5. sætinu en ÍBV er með 10 stig og situr þó fjórum sætum neðar í 9. sætinu. Eyjamenn hafa hins vegar unnið þrjá leiki það sem af er tímabilinu.

FH hefur alla jafna vegnað vel á Hásteinsvelli á síðari árum og aðeins tapað þar einum leik í efstu deild í síðustu tólf heimsóknum. Það var 3:1 tap árið 2011. Hins vegar vann ÍBV sigur á FH í undanúrslitum bikarkeppninnar á Hásteinsvelli í fyrra, 1:0, með marki frá Simon Smidt.

Báðir leikir ÍBV og FH í deildinni í fyrra enduðu 1:1. ÍBV hefur ekki náð að vinna FH í ellefu síðustu viðureignum liðanna í deildinni, eða frá áðurnefndum sigri árið 2011.

Fyrsta viðureign félaganna í efstu deild í Eyjum fór fram árið 1975 og endaði 1:1. Örn Óskarsson skoraði fyrir ÍBV en Þórir Jónsson fyrir FH. Þremur árum áður vann ÍBV sigur á FH, 2:0, í úrslitaleik bikarkeppninnar en FH lék þá í næstefstu deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert