„Áttum skelfilegan fyrri hálfleik“

Edda Garðarsdóttir á hliðarlínunni í kvöld.
Edda Garðarsdóttir á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Edda Garðarsdóttir, þjálfari Pepsi-deildar liðs KR, var heldur dauf í dálkinn eftir að lið hennar hafði tapað 3:0 gegn toppliði Þórs/KA á Akureyri í kvöld. KR-ingar komust lítt áleiðis í leiknum og áttu ekki sinn besta dag.

„Við áttum skelfilegan fyrri hálfleik. Þór/KA-stelpurnar mættu grimmar til leiks og það var eitthvert stress í mínum leikmönnum.“

Liðið hefur átt nokkra mjög slaka leiki í sumar en góða leiki inn á milli.

„Já. Við erum með ungt lið og þá er alveg eðlilegt að spilamennskan sveiflist upp og niður. Mér fannst lokatölurnar ekki alveg í takt við leikinn en tvö af mörkunum þeirra koma eftir kæruleysi upp við vítateiginn okkar. Þetta var ekkert þannig að Þór/KA hafi verið að spila einhvern glæsibolta og opna vörnina okkar. Ef ég á að sjá eitthvað jákvætt hjá okkur þá horfi ég á það.“

Hólmfríður Magnúsdóttir fór af velli í byrjun seinni hálfleiks, greinilega í einhverjum vandræðum.

„Hún virðist hafa náð sér í einhverja svakalega pest um verslunarmannahelgina og var komin með hita aftur. Reyndar vissi ég ekki af því fyrr en klukkutíma fyrir leik. Hún þurfti hreinlega að koma út af. Hún er bara lasin.“

Þið eruð enn í fallslag þegar fjórir leikir eru eftir, reyndar sjö stigum á undan Fylki. Verður þetta ekki barátta allt til loka?

„Jú, það verður þannig sama hvernig leikurinn hjá Fylki fer á morgun. Við hugsum nú bara um næsta leik, gegn Breiðabliki. Þetta heldur bara áfram og það verður væntanlega spenna allt til loka, bæði á toppi og botni deildarinnar,“ sagði Edda að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert