„Verðum að halda okkur á jörðinni“

Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA.
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Donni, þjálfari Þórs/KA, var brattur eftir að hans lið hafði lagt KR 3:0 í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Þór/KA skoraði snemma í leiknum og réð svo ferðinni þótt KR-ingar hefðu hæglega getað refsað þeim í tvígang í fyrri hálfleiknum.

„Ég er mjög ánægður með þennan sigur. Þetta var nokkuð öruggt og þær fengu varla færi í leiknum. Við spiluðum þetta nokkuð vel. Ég er ánægður með að við héldum hreinu, það er alltaf gott og svo skoruðum við þrjú góð mörk. Þetta er bara það sem maður óskar eftir.“

Forskot ykkar jókst í tíu stig í kvöld það sem ÍBV gerði jafntefli í sínum leik. Er þetta komið hjá ykkur?

„Nei alls ekki. Við vitum það fullvel að það getur allt gerst. Blikarnir eiga leik inni og ég geri ráð fyrir að þær vinni þann leik og minnki forskotið niður í átta stig. Þetta er hörkuverkefni fyrir okkur, að halda fókus og klára þetta. Það er auðvelt að hætta bara og halda að þetta sé komið en svo er alls ekki. Vissulega er staðan góð en við verðum að halda okkur á jörðinni.“

Þið náðuð loks að halda hreinu eftir basl gegn botnliðunum í síðustu leikjum.

„Við skoruðum sjö mörk í þeim leikjum þannig að sóknarlega var liðið að skila sínu. Við misstum stóran póst úr varnarlínunni þegar Lillý Rut meiddist og það tekur bara tíma að slípa varnarleikinn til þegar slíkt gerist. Við fengum varla færi á okkur núna og líka í síðasta leik þannig að þetta lítur vel út.“

Hvað er að frétta af Lillý Rut?

„Bara mjög gott. Hún er öll að koma til og gæti hugsanlega verið eitthvað með áður en tímabilið er búið. Það skýrist allt á næstu dögum,“ sagði Donni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert