Væri bitur gamall karl

Eiður Smári Guðjohnsen kemur inn á gegn Ungverjum.
Eiður Smári Guðjohnsen kemur inn á gegn Ungverjum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Eiður Smári Guðjohnsen segir í skemmtilegu viðtali við Gulfnews að hann væri bitur gamall karl ef hann hefði ekki spilað með Íslandi á EM í Frakklandi síðasta sumar. Ástæðan er sú að hann ætti erfitt með að horfa á íslenska landsliðið á HM, án þess að hafa upplifað það sjálfur að fara á stórmót. 

Eiður kom inn á sem varamaður í 1:1-jafnteflinu við Ungverja í riðlakeppninni og í 5:2-tapinu gegn Frökkum í 8 liða úrslitum. „EM hjálpaði mér mikið þó að ég hafi ekki spilað mikið. Ég fékk að upplifa draum sem ég var búinn að eiga síðan ég var lítill strákur,“ sagði Eiður. 

„Það er léttara að horfa á liðið komast á HM án mín. Ég væri bitur gamall karl ef ég hefði ekki spilað á stórmóti.“

Eiður segist handviss að Ísland geti haldið áfram að komast á stórmót með réttu hugarfari. 

„Það eru klárlega nægilega miklir hæfileikar til staðar til að halda þessu áfram, en við þurfum meira en hæfileika. Við þurfum trú og smáheppni. Ég hefði haldið að það væri erfitt að komast á HM núna eftir ævintýrið í Frakklandi, en strákarnir sýndu hvað þeir eru góðir saman,“ sagði Eiður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert