Verðlaun fyrir stoðsendingar - Þór/KA fékk heiðursverðlaun

Frá verðlaunaafhendingunni í kvöld.
Frá verðlaunaafhendingunni í kvöld. mbl.is/Eggert

Hallgrímur Mar Steingrímsson úr KA og Jósef Kristinn Jósefsson úr Stjörnunni lögðu upp flest mörk í Pepsi-deild karla í knattspyrnu árið 2017 og í Pepsi-deild kvenna voru það Svava Rós Guðmundsdóttir úr Breiðabliki og Stephany Mayor úr Þór/KA sem áttu flestar stoðsendingar.

Ítarlega úttekt á stoðsendingum deildanna er að finna í bókinni Íslensk knattspyrna 2017 en þeir leikmenn sem áttu flestar stoðsendingar voru verðlaunaðir í útgáfuhófi bókarinnar í Bjórgarðinum í Reykjavík í kvöld.

Hallgrímur og Jósef áttu 9 stoðsendingar hvor en á eftir þeim komu Guðjón Pétur Lýðsson úr Val, Jóhann Laxdal úr Stjörnunni og Martin Lund úr Breiðabliki með 7 stoðsendingar hver.

Þær Svava Rós og Stephany Mayor áttu 9 stoðsendingar hvor og á eftir þeim komu Berglind Björg Þorvaldsdóttir úr Breiðabliki og Vesna Elísa Smiljkovic úr Val með 8 hvor. Allir þessir leikmenn fengu viðurkenningar í kvöld.

Þá hlaut Þór/KA hin árlegu heiðursverðlaun Bókaútgáfunnar Tinds fyrir frábært uppbyggingarstarf í knattspyrnu kvenna og Íslandsmeistaratitil liðsins árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert