HK-ingar í toppsætið

Kristján Páll Jónsson og Már Viðarsson í baráttu um boltann …
Kristján Páll Jónsson og Már Viðarsson í baráttu um boltann í Breiðholtsslag Leiknis og ÍR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

HK er komið í toppsæti Inkasso-deildar karla í fótbolta eftir 3:1-sigur á Þrótti í Laugardalnum í kvöld. Á sama tíma vann Leiknir R. öruggan 3:1-sigur á grönnum sínum í ÍR á gervigrasinu á Leiknisvelli. 

Bjarni Gunnarsson kom HK í 1:0 á móti Þrótti á 19. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins. Kári Pétursson bætti við öðru marki á 49. mínútu og kom HK í góða stöðu.

Aron Þórður Albertsson lagaði stöðuna fyrir Þrótt á 57. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Ásgeir Marteinsson þriðja mark HK-inga og gulltryggði stigin þrjú. 

HK er nú með 10 stig eftir fjóra leiki, einu stigi meira en ÍA sem á leik til góða á móti Njarðvík annað kvöld. Þróttur er í 8. sæti með fjögur stig. 

Sævar Atli Magnússon og Anton Freyr Ársælsson komu Leikni í 2:0-forystu á móti ÍR í fyrri hálfleik. Sólon Breki Leifsson bætti við þriðja markinu úr víti á 51. mínútu, áður en Björgvin Stefán Pétursson lagaði stöðuna á 78. mínútu.

Nær komst ÍR ekki og fyrsti sigur Leiknis í sumar staðreynd. Bæði lið eru með þrjú stig og í 9. og 10. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert