Messi ekki eina ógn Argentínu

Hörður Björgvin Magnússon er búinn að jafna sig á meiðslunum …
Hörður Björgvin Magnússon er búinn að jafna sig á meiðslunum og er klár í slaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er í fínu standi í dag og mér líður vel. Ég er vissulega að snúa aftur eftir meiðsli en þetta er allt að koma og það var mikilvægt fyrir mig að fá 45. mínútur með félagsliði mínu fyrr í þessum mánuði,“ sagði Hörður Björgvin Magnússon, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í gær.

„Ég er kominn í 100% stand. Auðvitað getur maður alltaf bætt formið hjá sér en tímabilið kláraðist fyrir nokkru og þetta hefur ekki verið mikil hvíld hjá mér síðan þá. Ég á aðeins á strákana en ég er í sama standi og þeir eins og staðan er í dag. Þú missir ekki leikformið á stuttum tíma og það er fljótt að koma aftur þegar að maður byrjar að spila.“

Íslensku leikmennirnir hafa verið óheppnir með meiðsli að undanförnu en Hörður hefur litlar áhyggjur af því.

„Þetta leggst mjög vel í mig og við erum allir spenntir fyrir HM. Auðvitað hafa komið upp meiðsli hjá okkur en þannig er það í þessum blessaða fótbolta. Menn koma oft sterkari tilbaka eftir meiðsli og vonandi verða allir klárir þegar mótið hefst í næsta mánuði. Það eru alltaf möguleikar í fótbolta. Við tökum einn leik fyrir í einu, það er engin pressa á okkur og það eru fáir að spá í því hvað við getum gert í Rússlandi og við getum strítt öllum liðum.“

Hörður ítrekar að þrátt fyrir að Lionel Messi sé fyrirliði Argentínu séu fleiri frábærir leikmenn í hópnum sem hafa þurfi góðar gætur á.

„Ég er mjög spenntur að mæta Argentínu og Messi. Það er auðvitað erfitt að segja hvar hann mun spila á vellinu og við þurfum allir að vera klárir. Við munum taka vel á móti honum en það má ekki gleymast að Argentína er ekki eins manns lið. Það eru fleiri góðir leikmenn þarna og við þurfum að vera tilbúnir frá fyrstu mínútu,“ sagði varnarmaðurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert