Völsungur tyllti sér á toppinn

Guðmundur Óli Steingrímsson tryggði Völsungi sigur með marki úr vítaspyrnu.
Guðmundur Óli Steingrímsson tryggði Völsungi sigur með marki úr vítaspyrnu. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Þrír leikir fóru fram í 4. umferð íslensku 2. deildarinnar í knattspyrnu í dag og vann Völsungur afar mikilvægan 2:1 sigur á Fjarðabyggð á Eskjuvelli á Eskifirði þar sem Aðalsteinn Jóhann Friðriksson kom gestunum yfir á upphafsmínútunum.

Aleksander Stojkovic jafnaði metin fyrir heimamenn á 70. mínútu. Guðmundur Óli Steingrímsson tryggði svo Völsungi öll þrjú stigin í leiknum með marki úr vítaspyrnu á 72. mínútu og Völsungur er þar með komið á toppinn í C-deildinni með 10 stig en Fjarðabyggð er í fimmta sætinu með 7 stig.

Víðir lagði svo Tindastól á Sauðárkróki, 3:1, þar sem Stefan Antonio Lamanna kom heimamönnum yfir strax á 2. mínútu. Tonci Radovnikovic, Andri Gíslason og Fannar Orri Sævarsson skoruðu hins vegar sitt markið hver fyrir Víði og liðið er komið í áttunda sæti deildarinnar með 4 stig á meðan Tindastóll er á botninum án stiga eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Þá vann Grótta 3:0 sigur á Leikni frá Fáskrúðsfirði á Seltjarnarnesi í leik liðanna sem féllu úr 1. deildinni í fyrra. Heimamenn eru í sjötta sæti deildarinnar með 6 stig en Leiknir F. er í níunda sætinu með 4 stig en á morgun mætast svo Vestri og Afturelding á Ísafirði en leik Hugins og Hattar, sem fara átti fram í gær var frestað um óákveðinn tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert