„Okkur langar rosalega mikið í þennan bikar“

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vildum þetta svo hrikalega mikið,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, glaðbeittur við mbl.is eftir að Stjarnan tryggði sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í knattspyrnu með 2:0 sigri á FH í Garðabæ í kvöld.

„Ég er rosalega ánægður með frammistöðu liðsins í dag. Ég held að FH hafi ekki fengið færi í þessum leik, bara fullt af hornspyrnum og öðru slíku. Okkur hefur gengið vel gegn þriggja manna vörn í sumar og við brugðumst vel við því. Varnarleikurinn var frábær, stórhættulegir í skyndisóknum og þetta var bara þvílíkur vinnusigur,“ sagði Rúnar.

Stjarnan komst í 1:0 í fyrri hálfleik og það var ljóst að liðið ætlaði ekki í skotgrafirnar eftir hlé. Því til und­ir­strik­un­ar var miðjumaður­inn og fyr­irliðinn Bald­ur Sig­urðsson tek­inn af velli og fram­herj­inn Guðmund­ur Steinn Haf­steins­son sett­ur inn á í hans stað þegar um 25 mín­út­ur voru eft­ir.

„Við erum ekki vanir að taka Baldur út af, hann var að stífna upp í kálfanum og fer út vegna þess. Við ætluðum hvort sem er að setja Guðmund inn á svo það kom bara í sjálfu sér vel út. Guðmundur skoraði frábært mark eftir frábæra sókn og ég er bara hrikalega ánægður með allt í leik liðsins,“ sagði Rúnar.

Stjarnan mun nú spila til úrslita í bikarkeppninni í þriðja sinn, en aldrei hefur liðið þó unnið þann titil.

„Við höfum talað um að spila þennan leik síðan við settum okkur markmið í vor. Við ætlum okkur að vinna þennan bikar. Vonandi náum við að klára það 15. september. Okkur langar rosalega mikið í þennan bikar og við seljum okkur dýrt til þess að klára það eftir mánuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert