„Stelpurnar hafa fagnað vel með mér“

Haran með boltann í leiknum í kvöld.
Haran með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Við spiluðum betur í kvöld heldur en í síðasta leik gegn FH, þannig að við erum að bæta okkur og það er gott,“ sagði Allyson Haran, markaskorari Selfyssinga, í 1:1 jafnteflinu við Grindavík í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Á köflum þurftum við að róa okkur aðeins og spila boltanum betur en við höfum verið að bæta úr því jafnt og þétt á tímabilinu og munum halda því áfram. Grindavík fékk fleiri tækifæri í seinni hálfleiknum, þær mættu okkur framar og það sló okkur aðeins út af laginu.  Þetta hefur gerst áður hjá okkur og við þurfum að finna leiðir til þess að vinna okkur út úr svona stöðu,“ sagði Allyson.

Annan leikinn í röð náði varnarmaðurinn að skora eftir fast leikatriði Selfyssinga. Hvað finnst henni um að vera orðinn helsti markaskorari liðsins?

„Þetta eru mín fyrstu mörk á ferlinum og það er gaman að ná  loksins að skora. Ég fer fram í öllum hornspyrnum og öllum aukaspyrnum. Stelpurnar hafa fagnað vel með mér þannig að mér finnst þetta mjög skemmtilegt,“ segir Haran og hlær.

Selfoss er með 16 stig um miðja deild en er þrátt fyrir það ekki öruggt með sæti sitt í deildinni. Haran er bjartsýn á framhaldið.

„Ef við spilum áfram eins og við gerðum í fyrri hálfleiknum í kvöld, rólegar, skipulagðar og þéttar fyrir í vörninni þá munum við standa okkur vel gegn hvaða liði sem er á lokasprettinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert